Markaðurinn
Montecillo og Osborne veisla á Hótel Holti – Á morgun fimmtudaginn 21. maí | Lesið pistilinn um Montecillo hér
Osborne er einn elsti, stærsti og virtasti vínframleiðandi Spánar. Á morgun fimmtudaginn 21 maí, bæði í hádegi og kvöld heimsækir Rocio Osborne Gallery Restaurant og kynnir gesti fyrir framleiðslu Montecillo og Osborne sem bæði eru í eigu fjölskyldunnar. Sérvalin matar og vínpörun frá matreiðslumönnum og vínþjóni Hótel Holtar í boði og hvetjum við sem flesta að bóka borð.
Um Montecillo
Það hafa flest vínhéruð einhverja sérstöðu sem að aðgreinir þau frá öðrum. Spænska vínhéraðið Rioja hefur það umfram flest önnur að bestu vínin eru ekki seld við fyrsta mögulega tækifæri heldur eru þau látin liggja árum saman og bíða, fyrst á eikartunnum og síðan á flösku þangað til að þau hafa náð þeim þroska að þau séu tilbúin til neyslu. Það gefur augaleið að í þessu felst gífurleg fjárbinding og hún blasir bókstaflega við manni í allri sinni dýrð þegar komið er niður í kjallarann í víngerðarhúsi Bodegas Montecillo í bænum Fuenmayor, skammt frá héraðshöfuðborginni Logrono.
Öll betri vínhúsin í Rioja geyma vínin sín lengi, töluvert lengur en hinar þó ströngu reglur svæðisins segja til um. Samkvæmt þeim verður að geyma Gran Reserva vín í fimm ár, tvö ár á tunnu og þrjú á flösku, áður en að þau færu á markað og því eru þegar komin á markað einhver 2010 vín. Í kjallaranum hjá Montecillo er þó enn verið að bíða eftir að 2008 árgangurinn verði tilbúinn. Þar liggur hann, í heild sinni í allri sinni dýrð í tveimur risavöxnum stæðum sem samtals telja rúmar 600 þúsund flöskur. Montecillo mun vera eina vínhúsið sem að raðar upp stæðum sem þessum með handafli og það eru ansi mörg dagsverk sem liggja þar að baki, stæðurnar eru rúmlega mannhæðarháar og teygja sig inn kjallarann nánast eins langt og augað eygir.
Það eru hefðir sem þessar sem mynda sérstöðu Rioja í vínheiminum. Fyrir neytandann er þetta fullkomið hann fær sín vín, hvort sem þau eru Crianza, Reserva eða Gran Reserva og það án þess að Rioja-vínin séu alla jafn vín sem að þurfi að veðsetja fasteign fyrir. Þau bestu eru vissulega ekki ódýr en miðað við það sem gengur og gerist í mörgum vínhéruðum í dag eru þau á afskaplega hagstæðu verði, hvað þá þegar tillit er tekið til þess að þú hefur fengið oft hátt í áratugalanga víngeymslu inni í kaupverðinu. Vínhúsið ber kostnaðinn af vínþrúgunum, víngerðinni, flöskunni og korkinum í allan þennan tíma.
Þriðja elsta vínhús héraðsins – Frá árinu 1874
Montecillo vínhúsið rekur sögu sína aftur til ársins 1874 og er því þriðja elsta vínhús héraðsins. Það var lengst af í eigu afkomenda Celestino Navajas sem að stofnaði vínhúsið en var selt til Osborne-fjölskyldunnar á áttunda áratugnum. Hún er þekktasta vínfjölskylda Spánar og hafði fram að þessu fyrst og fremst getið sér nafn fyrir að framleiða sérrí og brandý syðst í Andalúsíu, í þorpinu Puerto Santa Maria. Nautið sem er vörumerki Osborne er það þekkt að það má segja að það sé orðið eitt af helstu þjóðartáknum Spánverja og þá jafnvel þannig að það er ekki lengur tengt einungis við Osborne heldur Spán sem slíkan. Fjölskyldan er einnig einn stærsti framleiðandi hráskinku á Spáni í hæsta gæðaflokki og er það gert undir merkjum Cinco Jotas, sem er raunar einnig heitið á nokkrum veitingahúsum í Madrid sem að leggja ekki síst áherslu á góða skinku og pylsur ásamt sérrí.
Rocio Osborne boðið starf eftir flókið og strangt umsóknarferli
Rocio Osborne, sem er helsti sendiherra Montecillo, er raunar einn af örfáum – einungis þremur – fulltrúum fjölskyldunnar – sem að starfa í vínhlutanum. Frá því að fyrsti ættleggur spænsku Osborne-ættarinnar myndaðist með breskum innflytjanda á átjándu öld eru ættleggirnir orðnir átta og afkomendurnir skipta hundruðum. Á níunda áratugunum var sú ákvörðun tekin að engin fulltrúi fjölskyldunnar skyldi starfa hjá fyrirtækinu nema í stjórn þess og sem æðsti stjórnandi. Það var svo fyrir tíu árum að stjórnin ákvað að ráða inn einn fulltrúa fjölskyldunnar og bauð nokkrum af yngri kynslóðinni að fara í gegnum flókið og strangt umsóknarferli. Að því loknu var Rocio boðið starf en hún segist fram til þess aldrei hafa hugsað sér að vinna í vínheiminum í ljósi fyrrgreindra reglna. Hún nam þess í stað lögfræði og fjármálafræði og hafði m.a. starfað í fjármálalífinu í London.
Fylgst grannt með hverri einustu ekru
Osborne breytti fljótlega rekstri Montecillo töluvert eftir að fyrirtækið var keypt. Ný víngerð var byggð upp árið 1975 og allar ekrur fyrirtækisins seldar skömmu síðar. Þess í stað voru gerðir samningar við tugir vínræktenda um kaup á þrúgum. Þetta gaf fyrirtækinu meiri sveigjanleika þegar kom að víngerðinni og Rocio Osborne segir það ekki hafa komið til tals að snúa af þessari braut. Fyrirtækið er með samninga við um sjötíu vínræktendur sem rækta þrúgur á um annað hundrað ekrum. Carmilo, sem heldur utan um vínræktina fyrir Montecillo, fylgir grannt með hverri einustu ekru og það hvernig hún er ræktuð og þróuð á hverju ári er gert í náinni samvinnu hans og vínbóndanna. Gæðaeftirlitið er stöðugt og Carmilo segir að þeir sem ekki uppfylla kröfurnar missa samningana.
Allar ekrurnar sem að Montecillo kaupir þrúgur frá eru af svæðinu Rioja Alta, einu af þremur undirsvæðum Rioja ásamt Rioja Alavesa og Rioja Baja. Rioja Alta er það svæði sem liggur hæst og þar er jarðvegurinn rauðleitari þar sem meira járn er í leirnum. Það er athyglisvert að horfa af hæðunum á svæðin í kring þar sem sést einnig til ljósleitari ekra í Alavesa þar sem meira kalk er í leirnum. Öll hafa svæðin sín sérkenni, veðurfarsleg og jarðfræðileg sem hafa mótandi áhrif á stíl vínanna og styrkleika. Helsti styrkur og sérkenni Rioja Alta er að ekrurnar eru hærra yfir sjávarmáli en á öðrum svæðum og meiri hitabreytingar innan sólarhringsins. Vínin verða því ferskari, fínlegri og sýrumeiri á meðan t.d. vínin í Alavesa og ekki síst Baja eru meira Miðjarðarhafsleg, kröftugri og áfengari.
Fjárfestingarnar hafa haldið áfram hjá Osborne, ekki síst í víngerðinni. Fyrir nokkrum árum voru allir víntankarnir þar sem gerjunin fer fram endurnýjaðir og eru nú með nýju ítölsku kerfi, svokölluðu Ganimedes-kerfi fyrir þá sem hafa áhuga á víntækni. Við gerjunina er mikilvægt að koma hreyfingu á vínlöginn þannig að berjahýðin og steinarnir sem að gefa litinn í vínið og tannín blandist saman við safann.
Vídeó
Það þarf því með einhverjum hætti að „hræra“ í vínleginum til að koma hýðinu sem flýtur upp á yfirborðið (og kallast „cap“) í umferð. Með Ganimedes-aðferðinni er þetta gert með eins konar risavaxinni trekt inni í tankinum sem að í samspili við koltvísýringinn sem að myndast við gerjunina kemur cap-inu á hreyfingu. Sömuleiðis hefur verið fjárfest í afskaplega afkastamikilli tunnuhreinsunarvél og eru allar tunnur (þær eru hátt í fjörutíu þúsund í vínhúsinu) hreinsaðar með sjóðheitu vatni og gufu fjórum sinnum á ári. Þetta er ekki síst gert til að koma í veg fyrir myndun gersveppsins brettanomyces. Í bjórgerð þykir hann oft eftirsóknarverður en í vínum myndar hann eins konar fúkkalegt kjallara- og sveppabragð sem í seinni tíð þykir ekki eftirsóknarvert. Allt miðar þetta að því að auka hreinleika vínanna og segir Rocio að markmiðið sé að stíllinn nái að endurspegla þrúguna Tempranillo sem best.
Montecillo fjársjóðurinn
Nýjasta viðbótin hjá Montecillo er svo gestamóttaka en Rocio segir fyrirtækið vilja taka þátt í því að opna víngerðirnar fyrir áhugasömum ferðamönnum. Þannig er búið að opna fyrir móttöku ferðamanna í víngerðinni í Fuenmayor auk þess sem að gamla upprunalega vínhúsið frá 1874 hefur verið gert upp og er t.d. hægt að nota undir móttökur. Í kjallara gamla vínhússins í hjarta Fuenmayor, tólf metrum undir jörðu er svo að finna helsta fjársjóð Montecillo, mikið safn af gömlum flöskum allt frá fyrstu áratugum síðustu aldar um það leyti sem að reglur voru settar um víngerð í Rioja. Verða þær einhvern tímann opnaðar, spyr ég Rocio. Ég vona það svarar hún og segist þá helst horfa til einhvers konar góðgerðaruppboða. Fyrir nokkrum árum voru nokkrar flöskur einmitt boðnar upp af breska uppboðshúsinu Christie‘s og kom þá í ljós að þær höfðu vel staðist tímans tönn.
Rocio horfir hins vegar til framtíðar. Stíll vínanna hefur verið að breytast með nýju teymi í vínræktinni og víngerðinni. Montecillo framleiðir þrjár línur. Montecillo er stofustássið en síðan eru einnig framleidd „nútímaleg“, kröftugri og eikaðri vín undir merkinu Vina Monty og ódýrari vín, sem fyrst og fremst eru ætluð innanlandsmarkaði, undir merkinu Vina Cumbrero. Þeir sem eru langminnugir muna hugsanlega eftir því að þegar Montecillo-vínin komu fyrst á markað hérlendis fyrir tæpum tuttugu árum þá var undirheiti Crianza-vínanna einmitt Vina Cumbrero og undirheiti Gran Reserva-vínanna Vina Monty. Þessi undirheiti voru hins vegar felld niður og eru nú nýtt með öðrum hætti. Cumbrero-línan er aðeins ódýrari, þar eru notaðar þrúgur sem ná ekki í Montecillo-vínin sjálf og eldri tunnur sem fyrst voru notaðar í Montecillo.
Rocio segir að þróun vínanna muni halda áfram, markmiðið sé að styrkja stöðugt strúktúr þeirra og gera þau margslugnari með stöðugum endurbótum á víngerð og vínrækt.
Hún er líka metnaðarfull fyrir hönd Rioja í heild. Stíll svæðisins hafi um tíma fengið „Parker-sýkina“ þar sem að leitast var við að gera vínin stærri, meiri og áfengari til að falla bandaríska víngagnrýnandanum Robert Parker í geð. Sýki sem hrjáð hefur t.d. Bordeaux um langt skeið. Hún telur hins vegar að bæði smekkur neytenda og gagnrýnenda sé að færast aftur í átt að fínlegri og hófstilltari vínum.
Það eru margir oðnir þreyttir á Rioja-vínum sem að líkjast meira vínum frá Ribera del Duero en Rioja,
segir hún. Hún segir margar aðrar jákvæðar breytingar vera að eiga sér stað, t.d. í regluverki Rioja. Nú megi nota skrúfaða tappa, sem geti hentað fyrir hvítvín og yngstu rauðvínin og heimilað hefur verið að nota fleiri þrúgur, s.s. Sauvignon Blanc og Chardonnay sem að styrkir samkeppnisstöðu svæðisins. Allt stuðli þetta að því að nútímavæði bæði vín og ímynd svæðisins í heild.
Sjá nánar um Montecillo og Osborne vínin á heimasíðu Globus hér.
Myndir: aðsendar
/Þorleifur „Tolli“ Sigurbjörnsson.
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Girnilegt camembert jólatré með döðlu og pekan krönsi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel5 dagar síðan
Mikil uppbygging framundan á Hofsstöðum – Veitingastaðurinn með eigin framleiðslu og hráefni úr heimabyggð
-
Frétt3 dagar síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi
-
Frétt2 dagar síðan
Innköllun á sviðasultu frá Kjarnafæði
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Fallegur og girnilegur jólakrans bar sigur úr býtum