Frétt
Hryllingssögur úr veitingabransanum – Ragnhildur Alda borgarfulltrúi „stofnaði“ ímyndaðan veitingastað og lenti sjálf í sömu hindrunum og veitingamenn þekkja
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að veitingamenn í borginni eigi það nánast allir sameiginlegt að hafa lent í erfiðleikum í samskiptum við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Hún lýsir seinagangi, mismunandi túlkun regluverks og ósamræmi í vinnubrögðum sem hafi orðið mörgum veitingamönnum dýrkeypt.
Í pistli sem hún birti á mbl.is og á samfélagsmiðlum segir hún frá eigin tilraun til að sækja um starfsleyfi með því að „stofna“ ímyndaðan veitingastað, Alda kalda bistró. Þar hafi komið í ljós hversu snúið ferlið geti verið fyrir leikmann. Þrátt fyrir að hafa fyllt út umsóknina komst hún ekki lengra þegar kom að fylgiskjalasíðunni, þar sem ekki lá ljóst fyrir hvaða gögn þyrfti að skila inn.
„Það er hálf ómögulegt fyrir venjulegt fólk að skila inn réttum gögnum,“ skrifar hún og bætir við að ólíkt öðrum stofnunum, svo sem sýslumanni eða skrifstofu borgarstjórnar, sé ekki hægt að hringja beint í Heilbrigðiseftirlitið eftir útskýringum. Samkvæmt frásögnum veitingamanna þurfi að senda tölvupóst og bíða viku eða lengur eftir því að fá símtal í stað þess að fá svör strax.
Ragnhildur segir stærstan hluta kvartananna snúast um að túlkun starfsfólks á lögum og reglum sé afar breytileg. „Aðfinnslur eru oft duttlungafullar og taka mið af skoðunum viðkomandi frekar en regluverkinu sjálfu,“ skrifar hún. Að hennar sögn þori fæstir að leita réttar síns, en þegar það sé gert standist athugasemdirnar sjaldnast nánari skoðun.
Þá bendir hún á að smávægileg atriði, til dæmis vaskur sem sé örfáa sentímetra of langt til hægri, geti orðið að stórum málum, á meðan alvarlegri atriði eins og skítug eldhús, ónýtar kælivélar eða vöntun á faglærðu starfsfólki fái oftar en ekki mörg tækifæri til úrbóta.
Hún segir veitingamenn sem hafa opnað staði utan Reykjavíkur, eða í öðrum löndum, lýsa miklum mun á vinnubrögðum eftirlitsaðila. Að hennar mati sé kominn tími til að bæta þjónustu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og hyggst hún leggja fram tillögur í þeim anda.
„Meira síðar,“ skrifar Ragnhildur og lætur að því liggja að málið verði áfram ofarlega á dagskrá hennar.
Mynd: reykjavik.is
-
Markaðurinn2 dagar síðanÓJ&K–ÍSAM og Sjöstrand hefja öflugt samstarf
-
Keppni3 dagar síðanOpið fyrir innsendingar í ítalskri kokteilkeppni Tipsý
-
Markaðurinn2 dagar síðanFLOTIÐ snýr aftur á Múlaberg, þjónar og kokkar skipta um hlutverk
-
Starfsmannavelta5 dagar síðanÓvænt brottför á Michelin staðnum Auro, Pico’s BBQ lokar og Lulu einfaldar reksturinn
-
Markaðurinn3 dagar síðanYfirmatreiðslumaður óskast til Marinar ehf. í fullt starf
-
Markaðurinn2 dagar síðanÍslendingar pöntuðu hamborgara, franskar og helling af kokteilsósu
-
Markaðurinn1 dagur síðanGrænmetiseldhúsið með Peter De Wandel í Garra
-
Frétt2 dagar síðanMatfugl innkallar ferskan kjúkling vegna gruns um salmonellu






