Vertu memm

Pistlar

Fjölbreytt víngerð á dönsku Suðurhafseyjunum

Birting:

þann

Vín er ekki það fyrsta sem kemur til hugar þegar Danmörku ber á góma, og líklega ekki það annað eða þriðja. Það er ekki fyrr en árið 2000 sem Danmörk fær vottun frá Evrópusambandinu sem vínframleiðsluland. Í kjölfarið fjölgar framleiðendum hratt og vín er nú framleitt í öllum hlutum landsins.

Það skemmtilegasta við dönsk vín er bundið í hefðarleysinu. Það er ekkert sem heitir venja og lítið af reglum um framleiðslu sem gefur ræktendum lausan tauminn þegar kemur að stílum og stefnum, og útkoman fjölbreytt eftir því.

Ég heimsótti fjóra vínframleiðendur í ferð minni um syðstu eyjar Danmerkur á dögunum, Suðurhafseyjarnar eins og heimamenn kalla þær, allir með ólíkar nálganir á ræktun og víngerð.

Fjölbreytt víngerð á dönsku Suðurhafseyjunum

Hjónin á Østergaard Vinmageri gera vín úr bæði vínberjum og ávöxtum

Vesterhave vingaard

Vesterhave vingaard er líklega verðlaunaðasta vínræktin sem ég heimsótti og sú eina sem gerir út á rauðvín. Vínin þaðan hafa m.a. hlotið náð hins alræmda Robert Parker sem hefur gefið nokkrum vínanna yfir 90 punkta og nú síðast Sort Lagune 1 frá 2021 95 punkta. Vínakrarnir eru við suðurströnd Sjálands, svo tæknilega séð ekki á dönsku suðurhafseyjunum en svo nálægt og svo áhugaverð framleiðsla að hún fékk að fljóta með.

Vesterhave vingaard er stærsta lífræna víngerð Danmerkur, þar er framleiddur fjöldi af vínum en öll í litlu upplagi. Rauðvínin taka mörg mið af norður ítölskum aðferðum þar sem vínberin eru létt þurrkuð áður en þau eru pressuð sem eykur bragðið og sætuna í víninu.

Fjölbreytt víngerð á dönsku Suðurhafseyjunum

Tilraunir á Vesterhave snúast m.a. um að hafa margar plöntur á sama bletti

Víngerð er einlægt áhugamál eigandans og víngerðarmannsins Jesper Rye Jensens, sem selur vínin sín í netverslun og í búð í anddyri víngerðarinnar þrátt fyrir að fjöldi veitingastaða hafi sóst eftir því að selja þau, m.a. hinn margrómaði þriggja michelin stjörnu Geranium. Mikið af vínökrunum við víngerðina eru tilraunastarfsemi, bæði með mismunandi þrúgur og aðferðir.

Fjölbreytt víngerð á dönsku Suðurhafseyjunum

Vesterhave vingård er einn af fáum framleiðendum á svæðinu sem gerir út á rauðvín

Þar ræktar hann t.d. primitivo og gewurztraminer, notar þang sem áburð og gerir tilraunir með allt að 6 vínviði á sama bletti til að vega upp á móti næringarríkum jarðveginum og hámarka nýtingu akranna. Allt virðist þetta snúast jafn mikið um að læra hvað náttúran getur gefið af sér á svona norðlægum slóðum, að miðla þekkingunni áfram með því að taka áhugasama í læri, og að gera góð vín.

Vesterhave er með breiðasta úrvalið af vínum af öllum framleiðendum sem ég heimsótti en það sem stendur líklega upp úr eru rauðvínin. Við skulum bara segja að Parker hafi eitthvað til síns máls í einkunnagjöfinni.

Hideaway vingård

Fjölbreytt víngerð á dönsku Suðurhafseyjunum

Vínin frá Hideaway eru í fíngerðara lagi

Hideaway vingård var upphaflega gæluverkefni eigandans Karin Hvidtfelt og mannsins hennar heitins, Michael, sem bókstaflega skrifaði leiðbeiningabókina um vínrækt í Danmörku.

Staðurinn ber nafn með réttu, vínræktin er falin á einni af smærri eyjunum við Láland, Fejø, sem er þekkt fyrir einstaklega milt loftslag sem gerir fjölbreyttum plöntum kleift að þrífast. Við litla veitinga- og gististaðinn sem er rekinn meðfram vínræktinni má m.a. finna fíkju- og pálmatré.

Hideaway vínin eru fíngerðari en vín margra kollega Karinar og hún miðar að því að endurspegla svæðið í víninu. Meðal annars með því að leyfa grunnbragðinu af þrúgunni að njóta sín með því bæta eins lítið við af aukaefnum og hún komast upp með og að nota gerið sem er til staðar á þrúgunum til að gerja vínið þar sem hún getur.

Fjölbreytt víngerð á dönsku Suðurhafseyjunum

Á Hideaway er ekki bara búið til vín, þar er líka veitingastaður og hægt að leigja gistingu

Rauðvínið frá henni var léttara og ferskara en rauðvín sem ég smakkaði frá kollegum hennar. Að hennar mati er þessi stíll rökréttari og endurspeglar betur loftslagið Danmörku.

Framleiðslan er lítil og miðar helst að því að selja til fínni veitingahúsa. Besta vínið sem ég smakkaði heitir Vingesus og blanda af sauvignon gris og solaris þrúgunum. Jafnvægið var mjög gott og vínið með betri hvítvínum sem ég hef smakkað frá svæðinu.

Østergaard Vinmageri

Fjölbreytt víngerð á dönsku Suðurhafseyjunum

Tilraunir Østergaard Vinmageri með freyðivín lofa góðu

Østergaard Vinmageri er staðsett á vestur Lálandi, á dýrasta ræktarsvæði í Danmörku og einu af því dýrasta í Evrópu. Víngerðin er í fallegum gömlum dönskum sveitabæ sem hýsir einnig lítinn veislusal og búð þar sem vínin eru seld gestum og gangandi.

Østergaard er stærsta hefðbundna vínræktunin af þeim sem ég heimsótti, og fer stækkandi. Henrik Ploug, sem byrjaði ræktunina sem áhugamál en hellti sér út í fulla framleiðslu ásamt konu sinni þegar að vinnustaða hans var færð af eyjunni, segir að lykilinn sé að fylgja innsæinu. Það sé enginn með öll svörin í Danmörku þar sem hefðin er ung og flestir ræktendur áhugafólk.

Þau hjónin framleiða tvö hvítvín, rósavín og rauðvín ásamt ísvínum úr perum og eplum og sætvíni úr kirsuberjum. Vínin eru öll aðgengileg og þægileg til drykkjar, frekar hefðbundin ef svo má að orði komast, þó einhver tilraunastarfsemi með gulvín og freyðivín sé í vinnslu.

Rósavínið stóð upp úr af því sem ég smakkaði. Það er mjög litsterkt, nær hárrauðu en bleiku vegna mikils litar og dökks hýðis á þrúgunum sem eru notaðar, en það er blanda af Rondo, Cabernet Cortis and Cabernet Cantor. Bragðið hins vegar er ávaxtaríkt og létt, tilfallið fyrir heitan sumardag í dönsku sveitinni.

Frederiksdal

Frederiksdal er víngerð staðsett á gömlum herragarði við vesturströnd Lálands þar sem vínin eru alveg í sérflokki, þau eru öll gerð úr kirsuberjum.

Aðferðir við víngerðina eru þær sömu og þegar unnið er með vínber í hefðbundinni vínframleiðslu, en berin eru danskt súrkirsi. Ætlun eigandans, Harald Krabbe, var að búa til eitthvað sérstakt, endurspegla svæðið með því að nota danskan ávöxt. Við gerjun er notast við gerið sem er til staðar á berjunum og framleiðslan er að mestu lífræn.

Fjölbreytt víngerð á dönsku Suðurhafseyjunum

Víngerðin í Frederiksdal gegnir líka hlutverki gestamóttöku og er þess virði að heimsækja

Víngerðin er í gömlu fjósi þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja. Innan um tunnur og tanka er lítill bar og sófar þar sem gestir geta tyllt sér og virt framleiðsluna fyrir sér.

Fjölbreytt víngerð á dönsku Suðurhafseyjunum

Ranció vín að þroskast á Fredriksdal

Eins og staðan er framleiðir Frederiksdal sjö gerðir af vínum, m.a. freyðivín, solera vín (solera aðferðin er hvað þekktust í framleiðslu á sérrí), rancíó vín (þar sem grunnvínið er geymt í glerflöskum utandyra í nokkur ár), ásamt kirsuberjavíni sem kinkar kolli til rauðvíns. Vínin eru skemmtilega fjölbreytt, öll bragðmikil en með nægri sýru til að fá gott jafnvægi á móti sterku kirsuberjabragðinu. Af vínunum sem eru á flösku var ég sjálf hrifnust af rancíó víninu, en það besta sem ég smakkaði er enn á tilraunastigi og ekki enn komið á markað. Það var kirsuberjavín sem hefur legið í frönskum eikartunnum í lengri tíma, nokkuð til að hafa augastað á þegar fram líða stundir.

Framtíðin

Flestar þrúgur sem eru ræktaðar í Danmörku eru yrki sem hafa verið búin til fyrir norðlægar slóðir, þær þola vel kulda, eru ekki líkleg til að fá á sig myglusvepp og taka tiltölulega stuttan tíma að þroska ber. Þetta kann að breytast á næstu árum. Allir vínframleiðendurnir sem ég heimsótti eru að gera tilraunir með pinot noir ræktun og flestir með önnur yrki sem eru algeng á enn suðlægari slóðum.

Stærsta tilraunin er í bígerð á eyjunni Møn, freyðivínsgerð sem mun aðeins rækta kampavínsþrúgur. Jörðin er svo frjó á eyjunum að vínviðurinn þrífst vel, sem vegur upp á móti kuldanum. Heitari tíð vegna loftslagsbreytinga leggur svo sitt á vogarskálarnar.

Það er orðið svo að allir vínframleiðendurnir sem ég talaði við áttu í basli með solaris, sem er algengasta þrúga í Danmörku, því henni líður of vel og safnar svo miklum sykri að það þarf að vanda til verka til að ná að halda alkóhólprósentu hvítvínsins niðri í 12-13°.

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig næstu ár verða hjá frændum okkar dönum, hvernig hefðin mótast og þegar fram líða stundir og hvað það verður sem við munum kalla hefðbundin dönsk vín.

Sóley Björk Guðmundsdóttir er vínfræðingur með brennandi áhuga á mat. Hún hefur lokið WSET 2 og WSET 3 stigum hjá Wine and Spirit Education Trust auk þess að sækja fjölda námskeiða um mat og vín í Barselóna þar sem hún býr. Meðfram víngrúski starfar hún við textasmíði, býður upp á vínsmakkanir og heldur úti Instagramsíðunni: A table for one in Barcelona. Hægt er að hafa samband við Sóleyju á netfangið: [email protected]

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið