Markaðurinn
Að hengja bakara
Íslensk stjórnvöld gerðu á árinu 2019 samning við Efnahags- framfararstofnun Evrópu (OECD) um framkvæmd á sjálfstæðu samkeppnismati á því regluverki sem gildir á sviðum byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu á Íslandi. Þeirri vinnu er lokið og var skýrslan kynnt á fundi á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í gær, þriðjudag.
Í skýrslunni er meðal annars lagt til að endurskoða í heild löggjöf um löggiltar starfsgreinar. Bent er á að hvergi í Evrópu sé fleiri lögverndaðar starfsgreinar en á Íslandi. Of yfirgripsmikil lögverndun geti leitt til hærra verðs til neytenda. Lagt er til að löggilding verði afnumin í tveimur greinum sem vandséð er að tengist byggingaiðnaði eða ferðaþjónustu með beinum hætti; bakaraiðn og ljósmyndun.
Í kaflanum um bakaraiðn kemur fram að það sé skilningur OECD, eftir samtöl við hagsmunaaðila, að nám bakara miði aðallega að því að tryggja gæði matvælanna og hollustuhætti. Bent er á að á því taki heilbrigðisreglugerð. Löggilding bakara sé íþyngjandi og samkeppnishamlandi. Hún sé því skaðleg fyrir neytendur og komi í veg fyrir nýsköpun.
Það er rétt að miklar kröfur eru gerðar til bakara á Íslandi og annarra sem framleiða matvæli. Og ekki að ósekju. Með löggildingu bakara tryggjum við fagmennsku, gæði og neytendavernd. Meistarakerfið sem við höfum byggt upp hefur gefið góða raun enda hafa þeir bakarar sem ljúka námi öðlast mikla kunnáttu og færni í faginu. Við útskrifum framúrskarandi fagmenn, eftirsótta starfskrafta, sem geta gengið í störf víðs vegar um heiminn. Í þessu samhengi má nefna að störf bakara og kjötiðnaðarmanna eru löggilt í átta löndum, utan Íslands. Þeirra á meðal eru Frakkland, Austurríki og Belgía.
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, sagði eftir kynningarfundinn í gær að fara þyrfti í gegn um hvar málefnalegar ástæður væru fyrir lögverndun. Með afnámi löggildingar bakara væri það sem nám sem mikil vinna hefur farið í að byggja upp gjaldfellt á einu bretti. Það myndi ekki aðeins vera stórt skref í ranga átt heldur ganga þvert gegn því markmiði sem Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra menntamála, hefur ítrekað lýst yfir. Hún vill efla iðn- og tækninám til muna.
Samkeppni er hverjum markaði nauðsynleg en tilgangurinn helgar ekki alltaf meðalið. Það er óboðlegt að fórna fagmennsku í þágu vonar um aukna samkeppni. Nær væri að stjórnvöld veittu fulltrúum iðnaðarmanna löngu tímabær verkfæri til að koma megi í veg fyrir að ófaglærðir starfsmenn grafi undan fagmennsku í iðngreinum, eins og raun ber sums staðar vitni, með því að vinna án réttinda. Þar er mein sem sannarlega skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja. Hengjum ekki bakara.
© Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður Matvæla- og veitingafélags Íslands.

-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðan
Mötuneyti í nýju húsnæði Landsbankans fær Svansvottun
-
Keppni5 dagar síðan
Landslið íslenskra matreiðslumanna fær kraftmikinn stuðning frá Íslandshótelum
-
Frétt4 dagar síðan
Gjaldþrot Hooters: Eftir 40 ár á toppnum er framtíðin óviss
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Uppskrift: Kjúklingalasagna með rjómaosti og spínati
-
Starfsmannavelta2 dagar síðan
Veitingageirinn titrar: Bloomin’ Brands með umfangsmiklar uppsagnir
-
Starfsmannavelta5 dagar síðan
Panera Bread lokar tveimur bakaríum í Kaliforníu og segir upp 350 starfsmönnum
-
Keppni11 klukkustundir síðan
Nýr vettvangur fyrir brauð-sérfræðinga: Heimsmeistaramót brauð-sommelier í fyrsta sinn
-
Markaðurinn1 dagur síðan
90 cm gaseldavél til sölu