Vertu memm

Eldlinan

Björt framtíð! – Kokkakeppni Grunnskóla Reykjavíkur

Birting:

þann

Það var mikið um að vera uppi í MK í dag. Þar fór fram í fyrsta sinn Kokkakeppni Grunnskóla Reykjavíkur, en segja má, að hún sé afleiðing þeirrar miklu grósku í matreiðslu- og heimilisfræðum, sem verið hefur í Rimaskóla, en hann hefur staðið fyrir kokkakeppni í sínum herbúðum síðustu ár.

Nú hefur hún verið gerð að árlegri keppni milli grunnskólanna í Reykavík, og ég vona svo sannarlega, að hún verði haldin fyrir landið allt innan tíðar.

Það var margt um manninn og mikil eftirvænting hjá krökkunum. Af matseðlunum mátti sjá, að mikill metnaður var lagður í matargerðina. Þarna brá fyrir alls kyns fiskréttum, fylltum mexíkóskum „pönnukökum,“ humar, kjöt- og kjúklingaréttum. Nemendurnir voru látnir skreyta borð og var virkilega gaman að sjá hugmyndaflugið hjá þeim, m.a.s. var eitt borðið skemmtilega skreytt ýmsum ávöxtum, þar sem borinn var fram steinbítur með Hawaii-sósu (m.a.s. voru stelpurnar, sem elduðu með Hawaii-borða um hálsinn sem hálsmen).

  • Það kom virkilega á óvart að sjá, hversu mikil gróska er í matreiðslukennslu og heimilisfræðum í grunnskólunum, og ef þetta er matreiðslan hjá yngri kynslóðinni, þá held ég, að við matgæðingar búum við bjarta framtíð, sem við getum hlakkað til!

Á boðstólum voru fínir réttir og m.a.s. réttir, sem maður bjóst eiginlega ekki við, að þrettán til fimmtán ára unglingar væru að elda. Ég bjóst helst við því, að á boðstólum væru réttir, sem þessi hópur sækti í, já, kannski meiri kjúklingur, súpur og brauðréttir, pasta og jafnvel pizzur – en það var ekki. Reyndar voru tveir kjúklingaréttir á borðum, báðir vel frambærilegir, og ein súpa. Hins vegar mátti sjá nokkuð, sem maður hefði haldið frekar framsækna matargerð hjá þessum aldurshópi, – innbakaðar lambalundir í smjördeigi, humar með rækjusósu, ostafyllta og beikonvafða kjúklingabringu og innbakaðan lax með peru- og eplamauki svo dæmi séu tekin.

Keppnin var vel skipulögð og MK á hrós skilið fyrir að veita aðgang að alvöru eldhúsi og hýsa keppnina. Í keppninni er fylgst með krökkunum vinna, en á meðan mega hvorki foreldrar né kennarar aðstoða þau og þau verða alfarið að spjara sig sjálf. Reglurnar eru í raun einfaldar: tveir til þrír nemendur þurfa að elda rétt fyrir einn á klukkutíma; allt hráefnið má hins vegar ekki kosta meira en 1.000.- kr. Gera má þó ráð fyrir að bragðið eitt hafi ekki ráðið úrslitum, enda var borðbúnaði og skreytingum, samstarfi þeirra og skipulagi í eldhúsi, uppsetningu á disk og framsetningu veitt athygli, auk þess sem menn þurfa, jú, að skila af sér hreinu vinnuborði! Dómgæslan var svo í öruggum höndum, og ekki óvanir dómarar þar á ferð úr matreiðsluheiminum. Formaður dómnefndar var svo sjálfur Ragnar Wessmann.

 Ég fékk að fylgjast með æfingu hjá Hamraskóla fyrr í vikunni, enda litla frænka mín í hópnum. Þau, Júlíanna Ósk, Ísak og Íris, höfðu komið sér fyrir í eldhúsinu heima hjá henni og voru að fara yfir skipulagið á vinnunni og minnislistann yfir aðferðir og áhöld. Það var virkilega gaman að fylgjast með þeim, þau voru einbeitt og metnaðargjörn og dugleg að skýra fyrir mér matseðilinn og eldamennskuna á meðan ég stóð og fylgdist með klukkunni. Þau skiptu verkum á milli sín og þegar ég sagði þeim að byrja, var hver kominn á sína vinnustöð og allt gekk snurðulaust fyrir sig – fyrir utan örlítið óhapp með sósuna. Þau voru búin að klára allt vel fyrir tilskilinn tíma og gengu vel frá. Borðbúnaðurinn var einstaklega fallegur og stílhreinn, laus við allan íburð – örlítið „mínímalískur.“ Maturinn bragðaðist svo prýðilega. Ég vonaði innilega að þeim gengi vel.

 Og það rættist! – Þau stóðu spennt og biðu eftir úrslitunum og uppskáru vel og fengu þriðja sætið! Verðlaunin, sem veitt voru, voru, já, bara þrælfín – alla vega hefði ég verið hæstánægður með verðlaunin, sem veitt voru fyrir fyrsta sætið! – Í þriðja sæti lenti s.s. Hamraskóli með ostafyllta, beikonvafða kjúklingabringu með piparsósu. Hún var borin fram með salati með steiktum furuhnetum, kokteiltómutum (+salt, olía og balsamedik), að ógleymdum ofnbökuðum rósmarínkartöflubátum, – og hlutu að launum gjafabréf frá Kaupþingi að upphæð 3.000.- kr. og svo gjafabréf, þar sem hópnum ölllum var boðið að borða á Galileo ásamt kennaranum sínum.

Í öðru sæti lenti svo Álftamýrarskóli, sem bauð upp á „Smálúðuævintýri“ (eða kannski smá-lúðu-ævintýri?). Þegar ég skoðaði diskinn hjá þeim, þá þótti mér hann einstaklega fallegur og gæti vel sómað sér á veitingastað. Því miður bragðaði ekki á honum – og sé eftir því! Þau fengu að launum gjafabréf frá Kaupþingi að upphæð 5.000.- kr. og gjafabréf á Silfur. (Ekki slæm verðlaun það!)

Í fyrsta sæti var svo Rimaskóli – og kom kannski ekki á óvart! Strákarnir, Kjartan, Sindri Hrafn og Arnar, buðu upp á innbakaðan íslenskan lax með peru- og eplamauki, borinn fram á salatbeði með matshiso dressingu. Með þessu voru svo fallega raðaðar dverggulrætur og dvergsperglar í sólargeisla út frá fiskinum. Þeir voru vel að sigrinum komnir, og m.a.s. skiptu þeir um rétt frá því þeir sigruðu keppnina í Rimaskóla ekki alls fyrir löngu, en þar voru þeir með kjötrétt, skilst mér. Þeir hlutu vegleg verðlaun, fyrir utan gjafabréf frá Kaupþingi, hlutu þeir ferð til London ásamt kennara, þar sem einhver hvíslaði því að mér, að þeir fengju að hitta Jamie Oliver og fá sér snæðing. Dágott það! Svo var auðvitað gefinn farandbikar til keppninnar, sem keppt verður um að ári.
– Til hamingju Rimaskóli!

Þegar keppnin var búin og flestir komnir aftur inn í eldhús að ganga frá, þá stalst ég til að spjalla við strákana úr Rimaskóla og smakka hjá þeim. Laxinn var ljúffengur og salatið frábært – enda sögðust þeir sjálfir hafa unnið á salatinu og dressingunni, granateplin og sérstaklega matsuhisa-sósan hefði verið leynivopnið, sem gert hefði gæfumuninn. Ég óskaði þeim til hamingju – og fékk að „stela“ frá þeim uppskriftinni.

Þessi keppni var í alla staði vel skipulögð og stórskemmtileg og það var gaman að sjá allan þennan metnað og gæðin voru svo ekki af verri endanum. Ég hlakka bara til að ári!

Blogg Sælkerans

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Click to comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið