Pistlar
Ein af strákunum
Árið 1980 er mitt fæðingarár. Það ár var frú Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti fyrst kvenna á Íslandi og í Evrópu. Þegar maður er svona ungur þá gerir maður sér ekki beint grein fyrir mismunun milli kynjanna eða mismunun yfir höfuð, en að hafa alist upp fyrstu 16 ár lífs míns með Vigdísi sem forseta lét mér allavegna líða eins og ég gæti allt. Gæti orðið nákvæmlega það sem ég vildi í framtíðinni. Ég vissi að hún væri fyrsti kvenforsetinn en gerði mér enga grein fyrir því að hvað hafði gengið á á árunum á undan. Árið 1915 fengu konur og vinnumenn kosningarétt. Konurnar þurftu reyndar að vera orðnar 40 ára til að mega kjósa og er það einsdæmi í veröldinni að slíkt aldursmark hafi verið sett á. Ég hafði margar fleiri sterkar kvenfyrirmyndir í mínu lífi. Til dæmis systur ömmu minnar, hana Rannveigu Þorsteinsdóttur, fædda 1904, sem braust til mennta á miðjum aldri. Hún var hæstaréttarlögmaður; varð fyrst kvenna til að öðlast hæstaréttarlögmannsréttindi. Hún var fremst í baráttunni fyrir lítilmagnann, fyrir jafnrétti og kvenfrelsi um miðja síðustu öld. Hún hafði setið á Alþingi og setið í stjórn og verið formaður í mörgum mikilvægum ráðum. Móðuramma mín, Rósa Þorsteinsdóttir, fædd 1911, var lærður kjólameistari, hafði gefið út bók og las iðulega upp útvarpssögur eftir sjálfa sig á Gufunni. Báðar unnu þær fulla vinnu og heimilisstörfin voru ekki bara þeirra. Það var eins mikið jafnrétti á heimilinu hjá ömmu og hún komst upp með á þeim tíma. Að þessar sterku konur hafi alist upp við þessar aðstæður er ótrúlega leiðinlegt að hugsa til. Svakalega mikill munur á minni æsku og þeirra þegar kemur að jafnrétti kynjanna og svo vonandi ennþá meiri munur á minni æsku og æsku dóttur minnar sem er tveggja ára í dag.
Ég er menntaður matreiðslumaður og matreiðslumeistari í seinni tíð. Þegar ég var að reyna að komast á samning sem matreiðslunemi þá var það frekar erfitt verð ég því miður að segja. Það kom alltaf spurningin: „Verðuru ekki bara ólétt og hættir?“ Og fleira í þeim dúr, sem ég efast um að karlkynsumsækjendur hafi verið spurðir að. Ég var 20 ára þegar ég byrjaði að læra og fékk loks samning eftir að hafa verið búin að sækja um á þessum helstu stöðum á landinu. Ég upplifði það þannig að ég þurfti alltaf að gera helmingi betur en strákarnir til að fá sömu viðurkenningu. Hvort það var pressa sem ég setti á mig sjálfa eða raunin er ég ekki viss um, en ég er viss um að ég hafi rutt brautina í mínu fagi fyrir konur. Sjálf vissi ég ekki að það væru til kvenkyns konnar þegar ég ákvað að verða kokkur. Ég hafði ekki séð kvenkyns kokka í sjónvarpinu eða á veitingastöðum svo ég held að mér hafi ekki dottið til hugar að læra kokkinn þrátt fyrir að hafa verið í veitingahúsaleik frá því ég var lítil stelpa. Það var sko alveg greinilegt hvað ég vildi verða þegar ég var lítil. Í dag er raunin önnur og margar stelpur á nemasamningi á flottum veitingastöðum á landinu. Aldrei spyrjum við um óléttu eða veikindi eða álíka asnalegar spurningar og ég var spurð að. Ég lifi samt í karlaveröld, er lang oftast eina konan og er ein af strákunum að þeirra og mínu mati. Það mun seint breytast hjá mér, en það verður öðruvísi hjá þeim konum sem útskrifast nú á eftir mér og eftir því sem þeim fjölgar í faginu.
Sjálf hef ég reynt að kjósa við hvert tækifæri frá því ég fékk kosningarétt, þökk sé forverum okkar, fyrir fertugt. Ég tel mig ágætlega upplýsta um stefnur og strauma þess sem á að kjósa um hverju sinni en það hefur komið fyrir að ég hef hugsað að ég hafi ekki náð að kynna mér viss málefni nógu vel. Þá hefur hvarflað að mér að ég ætti nú kannski ekki að vera að kjósa, en það er alls ekki sá hugsunarháttur sem maður á að temja sér. Maður á að nota kosningaréttinn sem svo hart var barist fyrir. Það að konur hafi kosningarétt líta örugglega margir á sem sjálfsagðan hlut og almenn mannréttindi, en það er ekki svo einfalt. Konur hafa verið taldar veikara kynið í gegnum tíðina, en eins og við vitum öll þá eru þær það ekki. Ekki frekar en karlar. Við erum öll saman í þessu lífi.
Hættum að vera konur og karlar og verum bara manneskjur. Þannig náum við jafnrétti.
Pistill þessi var birtur á mbl.is í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna og er pistillinn um upplifun af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum.
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Girnilegt camembert jólatré með döðlu og pekan krönsi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel5 dagar síðan
Mikil uppbygging framundan á Hofsstöðum – Veitingastaðurinn með eigin framleiðslu og hráefni úr heimabyggð
-
Frétt3 dagar síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi
-
Frétt2 dagar síðan
Innköllun á sviðasultu frá Kjarnafæði
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Fallegur og girnilegur jólakrans bar sigur úr býtum