Freisting
Veitingarýnir Jónas Kristjánsson
Á heimasíðu Jónasar Kristjánssonar veitingarýnir með meiru, er hægt að lesa misgóðar gagnrýni á hendur veitingahúsa, til að byrja þá tekur hann Sjávarkjallarann fyrir, því næst Vín og skel, Kínahúsið og síðan Indian Mango.
Hér að neðan ber að líta hans álit á stöðunum:
Glaður og fínn ( Sjávarkjallarinn )
Ég var í Sjávarkjallaranum, sæll að venju í fullu húsi að venju. Þetta er annar af tveimur toppstöðum veitinga, hefur ekkert gefið eftir í úthaldi í tæp þrjú ár. Eini staður ekta samrunastíls hér á landi, blandar saman frönskum grunni og austrænum viðbótum. Dýrastur er 6800 króna seðill tólf smárétta, sem jafnan freistar mest, enda kostar þríréttað litlu minna, 6500 krónur. Hér fæst barri með silungahrognum, linskeljarkrabbi með gúrku, saltfiskur með engifer, kakóbaunafroða með skyri. Í hádeginu er hægt að fá sjávarréttasúpu á 1400 krónur. Hér er glöð og fín matarstemmning.
Tilgangsleysi (Vín og skel )
Enn einn tilgangslausi matstaðurinn, í bakhúsi við Laugaveg 55. Vín og skel býður daufa matreiðslu og verðleggur hana dýrt, 5800 krónur þríréttað, litlu lægra en Sjávarkjallarinn, svipað og Tjörnin og Primavera, dýrari en Þrír Frakkar. Saltfiskur var bara saltur fiskur með frönskum kartöflum, rauðkáli og grænmetisteningum. Humar var óvenju smár og langeldaður. Humar- og kúskeljafroða var bara froða. Bezt var fjölbreytt sjávarréttasúpa, kostaði aðeins 1250 krónur í hádeginu. Hvíttaður kjallari með óbrjótanlegum vínglösum og svörtum borðdúkum býður öll borðvín í glasatali.
Borðstofan okkar ( Kínahúsið )
Þegar ég kem þreyttur af hestbaki og nenni ekki að elda, verður oftast fyrir mér Kínahúsið. Þar er aldrei fullt, þótt þar sé bezti Kínamatur landsins, notaleg stofa og róandi tónlist frá Singapúr. Þar kostar tæpar 2000 krónur að borða súpu og fimmréttaðan mat, sem kemur ekki upp úr hitakössum, heldur er séreldaður fyrir hvert borð. Þetta kostar þriðjung af verði Víns og skeljar og skilur eftir þægilegri tilfinningu, þegar haldið er heim. Stundum er svo fátt í Kínahúsinu, að ætla mætti að þetta sé borðstofan okkar Kristínar.
Indian Mango
Indian Mango er ofmetið veitingahús við Frakkastíg með fjölþjóðlegri blöndu af vestrænni matreiðslu, portúgalskri og matreiðslu frá borginni Goa á vesturströnd Indlands. Þetta er ekki indverskur staður í hefðbundnum skilningi, býður ekki kryddaða raita jógúrt eða naan brauð og ekki heldur rétt eldað tandoori úr leirofni. Fráleitt er að borða þar tandoori kjúkling, en ágætt að fá sér hæfilega grillaðan svartfugl að ný-íslenzkum hætti. Ekki veit ég, hvers vegna sílikonliðið elskar staðinn, kannski af því að staðurinn er enskumælandi, ekki hægt að panta mat á íslenzku.
Veitingarýni
Indverskur matur er mun betri á Austur-Indíafélaginu á Hverfisgötu, að vísu dýrari. Þar kostar þríréttað 4.800 krónur, en á Indian Mango kostar það 3.300 krónur, svo sem sanngjarnt verð, ef þú heldur ekki, að þú sért að borða upp á indversku. Afgreiðslan er hæg, en þjónustan er brosmild og þægileg, dálítið upphafin á ameríska vísu, en þó ekki ætluð túristum. Staðurinn er í kjallara, tekur um 40 manns í sæti á tveimur gólfum. Húsakynni eru notaleg, svo sem tágastólar, skreytingar ekki of indverskar, íslenzkt málverk er á vegg. Munnþurrkur eru úr þykkum pappír og hnífapör eru sérstæð.
Frumlegt
Áherzla er lögð á frumlega framsetningu rétta eins og í klassískri eldamennsku íslenzkri. Rauðvínsglas var sett á hvolf ofan á kryddlegið hrásalat, uppi á botninum haft chutney sulta og í kring fjórir munnbitar af hveitihúðuðum fiski. Geymslubragð var að rækjum í stökku pappadom brauði, sem fylgir flestum réttum. Djúpsteiking var mikið notuð á sætum kartöflustöngum. Mig langar ekki í neitt af þessu aftur, nema íslenzka svartfuglinn. Indian Mango fær tvær stjörnur.
Greint frá á Jonas.is
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðan
Áætla um 100 matreiðslumenn og 50 framreiðslumenn að störfum í hátíðarkvöldverði KM
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Er þorrablót í vændum ?
-
Starfsmannavelta5 dagar síðan
Michelin veitingastaðnum Locanda Locatelli lokað eftir 23 ára starfsemi
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Monkeys PopUp á Hótel Vesturlandi – Ekki missa af þessum viðburði
-
Markaðurinn7 dagar síðan
Við leitum að öflugum hótelstjóra á Fosshótel Vestfirði
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Nýtt útlit á Tanqueray nr.10
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Allt fyrir Þorrablótin
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Ekta heimilismatur ofl. á góðu tilboði