Vertu memm

Markaðurinn

Teikn á lofti um bjartari tíma

Birting:

þann

Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS

Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS

Þær takmarkanir á ferðafrelsi og samkomum, sem enginn hefur farið varhluta af árið 2020, hafa haft gífurleg áhrif á marga iðnaðarmenn okkar í matvæla- og veitingagreinum. Fyrirtæki standa mörg hver höllum fæti eftir ágjöfina og þurfa að reiða sig á úrræði stjórnvalda. Samkvæmt greiningu Samtaka atvinnulífsins dróst kortavelta veitingageirans saman um 22 milljarða frá mars til október á milli ára. Þar af vantaði 19 milljarða frá erlendum ferðamönnum. Það munar um minna.

Verkefni okkar hjá MATVÍS á þessu ári hafa sem von er litast af þessu erfiða ástandi. Loksins er þó hægt að segja að jákvæð teikn séu á lofti. Þrátt fyrir misvísandi skilaboð stjórnvalda um kaup á bóluefnum liggur fyrir að bólusetningar munu hefjast á komandi vikum. Það er mun fyrr en menn þorðu að gera sér vonir um þegar faraldurinn blossaði upp í vor. Nú eiga fyrirtæki um allt land framtíð sína undir því að íslensk stjórnvöld tryggi þjóðinni nægt bóluefni eins fljótt og verða má. Innan þeirra eru ótal dýrmæt störf. Vonandi tekst þeim flestum að þreyja þorrann.

Ef vel tekst til með bólusetningar er ástæða til bjartsýni. Innviðir landsins, svo sem í ferðaþjónustu, eru enn til staðar. Svo fremi sem fyrirtækin lifa erum við vel í stakk búin til að taka á móti ferðamönnum þegar þeir byrja að streyma til landsins á nýjan leik. Þar hljótum við að horfa til sumarsins.

Aukin upplýsingagjöf

Heimsfaraldurinn hefur knúið okkur öll til nýrrar nálgunar í samskiptum. Áhersla á fjarfundi og rafrænt aðgengi upplýsinga hefur aldrei verið meiri. Í takt við þessa þróun hefur MATVÍS samið við Baldur Guðmundsson, ritstjóra og sjálfstætt starfandi blaðamann, um miðlun upplýsinga á vef félagsins og samfélagsmiðla. Hann hóf störf í nóvembermánuði og hefur samhliða haft umsjón með endurbótum á matvis.is, sem nú er lokið.

Fyrir okkur vakir að bæta þjónustu við félagsmenn með því að auka áherslu á rafrænar lausnir. Ný vefsíða, aukin upplýsingagjöf og „Mínar síður“ eru mikilvægar vörður á þeirri leið.

Hús Fagfélaganna, Stórhöfða 31.

Hús Fagfélaganna, Stórhöfða 31.

Samvinnan fer vel af stað

Hús Fagfélaganna var formlega opnað á Stórhöfða þann 25. nóvember í fyrra. Fyrsta starfsárinu er því lokið. Í húsinu eru auk MATVÍS Félag iðn- og tæknigreina, Rafiðnaðarsambandið, Samiðn og Byggiðn. Markmiðið var og er að samnýta þá krafta og þekkingu sem innan þessara félaga býr. Þau deila nú ýmsum föstum kostnaði og vinna á mörgum sviðum náið saman.

Ánægjulegt skref í þá átt að styrkja samvinnu félaganna var ráðning Elsu Maríu Rögnvaldsdóttur lögfræðings. Hún hóf störf í Húsi Fagfélaganna 1. desember. Við erum afar ánægð með þann hag sem þegar hefur orðið af samvinnu félaganna og horfum björtum augum til framtíðar í þeim efnum.

MATVÍS sendir félagsmönnum, samstarfsfólki og öðrum velunnurum hugheilar jóla- og nýárskveðjur með þökk fyrir samstarfið á því óvenjulega ári sem er að líða.

Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS.

Viltu birta grein á Veitingageirinn.is? Sendu okkur póst [email protected]. Með pistlinum þarf að fylgja nafn höfundar, titill og mynd.

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið