Vertu memm

Pistlar

Hvað varð um GÁMES?

Birting:

þann

Andreas Jacobsen

Andreas Jacobsen

Í þessum pistli langar mig að velta fyrir mér hvað varð um GÁMES-kerfið sem að skylda átti öll veitingahús (og önnur matvælafyrirtæki) að setja upp og starfa eftir, bæði í sambandi við þrif, vörumóttöku, þjálfun starfsfólks, hitastigsskráningar, innra eftirlit o.s.frv.

Ég veit að fyrir nokkrum árum voru staðir sem eyddu miklum tíma og fjármunum í þetta kerfi, önnur gerðu það ekki.  Veit einhver t.d. um að fyrirtæki hafi verið lokað vegna vanrækslu á GÁMES?  Fyrir svona 5-6 árum var alltaf birt mynd í Morgunblaðinu þegar eitthvað fyrirtækið var búið að setja upp GÁMES.  Lítil svart-hvít mynd, þar sem að forstöðumaður viðkomandi fyrirtækis sást taka á móti viðurkenningaskjali frá útsendara Heilbrigðiseftirlitsins, undir myndinni var svo nafn forstöðumannsins og sagt frá því að viðkomandi staður væri nú vottaður GÁMES staður.  Þessar myndir eru nú hættar að birtast og varla hefur heyrst talað um GÁMES í langan tíma.

Heilbrigðiseftirlitið kemur alltaf annaðs lagið og gerir “rassíu” á veitingastöðum landsins (og sjálfsagt öðrum stöðum tengdum matvælabransanum), og koma með einhverja athugasemdir og líta stundum á þetta svokallaða GÁMES kerfi sem á að vera á öllum stöðum.  Sjaldan er víst gerð athugasemd við hvernig þetta er gert og útfyllt og þykir mér ótrúlegt að sumir staðir skuli hafa fengið vottum frá Heilbrigðiseftirlitinu.  Reyndar er ótrúlegt að sumir staðir skuli hafa leyfi til að afgreiða mat yfirleitt.  Oft er GÁMES kerfið hjá þeim einhver ljósrit ofan í skúffu, sem aldrei er notað, fáir vita um þessi ljósrit og færri vita hvað GÁMES er. Ekkert innra eftirlit, engar hitastigsskráningar, ekkert…

Oft er nóg að koma með einhverja auma afsökun, þá fá menn allavega 6 mánaða frest til að koma hlutunum í lag, sem menn fúska sig svo í gegnum á einhvern ótrúlegan hátt.  Fá t.d. lánað ljósrit hinu megin götunar, fylla út þrif- og hitastigsskráningaskýrslur aftur í tímann o.s.frv.  Allt er notað, enda ekki skrýtið, óþarfi að láta loka staðnum út af því að einhver möppudýr frá Heilbrigðiseftirlitinu hafa eitthvað út á staðinn að setja.

Reyndar eiga margar athugasemdir frá þeim fyllilega rétt á sér, en aðrar finnst manni alveg út í hött.  Svona margir vaskar í eldhúsinu (4 að mig minnir) þessi vaskur VERÐUR að vera minnst 30 cm frá þeim næsta.  Allir sem einhvern tímann hafa unnið í eldhúsi vita að sjaldan er not fyrir alla þessa vaska, betur væri að hafa meira borðpláss á kostnað vaskana.

Talandi um vaska finnst mér eitt atriði alveg hrein snilld og sýnir hversu djúpt þessir menn hugsa.  Á handlaug í eldhúsi SKAL vera einhverskonar handfrjáls búnaður, svo að ekki þurfi að nota hendurnar þegar menn skrúfa vatnið af og á.  Góð hugmynd og mjög skiljanleg.  En á starfsmanna-salerni veitingastaða er EKKI skylda að vera með slíkan búnað.  Hvar eru rökin???

Ég er að velta fyrir mér hvort að þessir menn hafa einhvern tímann unnið á veitingastað eða í kjötvinnslu eða í bakarí.  Væri ekki nær að vera með fólk sem væri með einhverja reynslu í slíkum störfum, sem aðstoðuðu Heilbrigðiseftirlitið við að taka staðina út?

Eftir að hafa skrifað þessi orð fer ég að velta fyrir mér hvort að Heilbrigðiseftirlitið fari nú ekki að koma í heimsókn til mín og kynna fyrir mér ýmsar nýjar og gamlar reglugerðir og jafnvel finna að einhverju hjá mér.

En aftur að GÁMES (mér hættir dálítið að rása úr einu í annað, þeir sem hafa lesið eldri pistla eftir mig hafa sjálfsagt tekið eftir því, sérstaklega þegar ég er orðinn kenndur).  Mig hefur alltaf fyndist að reglur eiga að ganga jafnt yfir alla.  Sumir eiga ekki að komast upp með að vera með eitthvað vasa-GÁMES kerfi, á meðan aðrir staðir leggja sig mikið fram með að framfylgja því.  Reyndar hef ég þá skoðun að til langs tíma séð borga það sig nú að vera með GÁMES kerfið á hreinu og fúska ekki.

© Andreas Jacobsen – 2001

Viltu birta grein á Veitingageirinn.is? Sendu okkur póst [email protected]. Með pistlinum þarf að fylgja nafn höfundar, titill og mynd.

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið