Vertu memm

Frétt

Hilmar Bragi Jónsson látinn

Birting:

þann

Hilmar B. Jónsson

Hilmar B. Jónsson

Þær sorglegu fréttir voru að berast að einn af okkar dáðustu matreiðslumeisturum væri látinn.  Hilmar Bragi Jónsson lést á Torrevieja á Spáni nú í morgun 11. september, 81 árs að aldri.  Það var sonur hans Jón Kári Hilmarsson sem tilkynnti andlát hans á facebook og veitti okkur hjá veitingageirinn.is leyfi til að birta þessa tilkynningu.

Hilmar Bragi hafði legið á spítala frá 3. ágúst vegna sýkingar í hjarta, tengt hjartaaðgerð sem hann fór í fyrir um 25 árum. Lyfin virtust vera að virka en hjartað hefur gefið sig.

Við hjá Veitingageirinn.is vottum aðstandendum Hilmars Braga dýpstu samúð.

Þær eru ófáar fréttirnar og pistlarnir sem birst hafa frá Hilmari hér á veitingageirinn.is og lesa má með því að smella hér.

Hér að neðan er æviágrip Hilmars sem birt var hér á veitingageirinn.is þegar Hilmar varð áttræður.

Hilmar Bragi Jónsson matreiðslumeistari

Hilmar Bragi Jónsson matreiðslumeistari var fæddur á Ísafirði 25. október 1942 í húsi sem þá var Krókur 2 en er í dag Krókur 3.

Foreldrar Jón Jónsson skáld og söngvari frá Ljárskógum í Dölum og Jónína Kristín Kristjánsdóttir. 3 vikum eftir að Hilmar fæddist veiktist Jón af berklum og fór suður á Vífilstaði. Jónína fór með honum og skildi Hilmar eftir hjá Katrínu móður sinni. Eftir tæp 3 ár dó Jón úr berklunum.

Allan þennan tíma var Hilmar hjá ömmu sinni á Ísafirði. Um þetta leyti flutti Katrín amma til Reykjavíkur og Hilmar með. Þegar Hilmar var 5 ára var hann sendur í sveit til systkina og móður Jóns í Ljárskógum. Þar var Hilmar alinn upp til 14 ára aldurs þegar hann flutti til móður sinnar í Keflavík.

Hann gekk þar í skóla eins og aðrir unglingar. Þegar skólanum lauk fór hann að vinna sem lagermaður í verslun Nonna og Bubba. Hann hætti þar eftir um tvö ár og gerðist verkamaður í blikksmiðju Gústa Blikk. Hilmar hafði gert handsal um það við Gústa að gerast lærlingur í blikksmíði. Einn daginn hringdi Katrín amma og sagði að frænda þeirra vantaði kokkalærling á Matstofu Austurbæjar og mælti eindregið með að hann sækti um starfið. Hann gerði það og fékk starfið.

Í október 1962 gekk hann inn á matstofuna í kokkajakka og byrjaði kokkanám. Þegar náminu lauk var Hótel Loftleiðir að opna og sótti hann um starf og var ráðinn. Hótel Loftleiðir var þá stærsta og flottasta hótel landsins og vægast sagt brjálað að gera. Yfirkokkur var Karl Finnbogason sem var frekar hlédrægur maður og af einhverjum ástæðum otaði hann Hilmari mikið fram þegar kokkur þurfti að gera eitthvað fyrir framan gestina.

Af þessum ástæðum kynntist Hilmar flestum erlendum starfsmönnum Loftleiða sem komu nokkuð oft á ári með gesti á hótelið sem fengu flottar veislur þar sem Hilmar var látinn skera steikur eða eldsteikja fyrir framan gestina. Enn daginn hringdi einn sölumaður Loftleiða í New York Jeff Edmunds í Hilmar og spurði hvort hann gæti komið í 3-4 daga til NY og séð um veislu fyrir hóp af fuglafræðingum sem hann var að reyna að fá til að koma til Íslands.

Það var samþykkt og fór Hilmar til NY og sá um kvöldverð fyrir 110 manns. Reyktur lax í forrétt, logandi lamb í aðalrétt og íslenskar pönnukökur í eftirrétt.

Það var ungur maður á staðnum sem Hilmar sá að var að taka myndir. Veislan gekk frábærlega og var Jeff rosa ánægður. Þrem dögum eftir heimkomuna var stór grein með myndum frá veislunni þar sem Hilmari var hælt virkilega fyrir frábæran mat og allt það. Þessi veisla varð upphafið að löngu og farsælu starfi Hilmars sem ferðakokkur því þessi grein setti hann á kortið.

Stuttu eftir þetta hafði forstjóri ferðamálaráðs samband við Hilmar og sagði að það stæði til að halda þriggja vikna landkynningu í Frankfurt. Hann hafi haft samband við hótelið og Hilmar mætti taka sér frí til að sjá um málið. Í ferðina voru valdir tveir aðrir kokkar og sjö tísku sýningardömur.

Þessi landkynning tókst frábærlega vel og næstu 20 árin var Hilmar með 3 til 5 landkynningar á ári um allar trissur. Fyrstu árin var Hilmar einn með tískusýningar dömunum á öllum þessum ferðalögum en svo fóru aðilar frá Ferðamálaráði, Útflutningsráði, Loftleiðum, Eimskip, Sambandinu og fleirum að koma með.

Þessar landkynningar voru oftast þannig að Hilmar setti upp íslenskan matseðil á veitingastað sem var næstum alltaf í hóteli þar sem hópurinn gisti. Stundum voru haldnar stórar veislur fyrir viðskiptavini Íslands sem gátu verið allt frá 100 til 450 manns og var Hilmar ábyrgur fyrir öllu eins og að setja upp matseðilinn, sjá um aðstöðu fyrir tískusýningu, setja upp ljós og tónlist og aðstöðu fyrir stúlkurnar til að skipta um föt.

Nú eitt árið voru forsetakosningar og Frú Vigdís var kosinn forseti. Það var svokallað protokol eða hefð að yngsti þjóðhöfðingi Norðurlandanna heimsækti hin Norðurlöndin. Fyrsta landið sem Frú Vigdís heimsótti var Danmörk. Þá hélt Danadrottning kvöldverð fyrir Frú Vigdísi og fylgdarlið og daginn eftir hélt Frú Vigdís kvöldverð fyrir drottningu og fylgdarlið.

Í þessa ferð valdi hún yfirkokkinn á Hótel Sögu Fransis Fons til að sjá um sína veislu. Daginn eftir hélt Ísland 450 manna veislu í Kaupmannahöfn fyrir vildarvini Íslands og var boðið í veisluna í nafni Frú Vigdísar. Hilmar var fenginn til að sjá um þessa veislu og var hún haldinn á Hotel DeAngletere sem var þá flottasta hótel Dana.

Hilmar stóð við hlaðborðið og heilsaði Frú Vigdís honum og ræddi smávegis við hann. Hilmar lét Frú Vigdísi hafa nafnspjaldið sitt. Nokkrum dögum eftir að heim kom hringdi Frú Vigdís í Hilmar og sagði að hún ætlaði að halda kvöldverðarboð á Bessastöðum og hvort hann gæti séð um það fyrir sig. Hilmar sagði ekkert sjálfsagðara.

Þá fór Hilmar og hitti Emil Guðmundsson sem var þá hótelstjóri og spurði hvort hann gæti fengið frí þennan dag til að elda fyrir Frú Vigdísi og sagði Emil þá að hvenær sem Frú Vigdís þyrfti á honum að halda mætti hann taka frí. Þetta varð til þess að í 12 ár var Hilmar opinber matreiðslumaður Frú Vigdísar.

Á þessum árum hafði Hilmar hætt á Hótel Loftleiðum og orðið fyrsti yfirkokkur á Hótel Esju í heilt ár, þegar honum var svo boðið að verða veitingastjóri á Hótel Loftleiðum. Á þessum tíma stofnuðu Hilmar og konan hans Elín Káradóttir tímaritið Gestgjafann. Eftir eitt ár með Gestgjafann hætti Hilmar á Hótel Loftleiðum og snéri sér að fullu að tímaritinu, sem varð lang mest selda tímarit á Íslandi og er enn svo vitað sé.

Á árunum með Frú Vigdísi eldaði Hilmar ofan í 11 þjóðhöfðingja og suma tvisvar. Frú Elísabet Englandsdrottning er númer eitt er haft eftir honum. Þrátt fyrir þessa breytingu hélt hann áfram að fara með landkynningar um víðan völl og sjá um það sem þurfti. Eftir 8 ár með Gestgjafann var ákveðið að selja hann og Elín og Hilmar stofnuðu Matreiðsluskólann Okkar í Hafnarfirði. Hilmar er einn af 14 stofnendum Klúbbs Matreiðslumeistara 16 Feb 1972 og var mjög aktífur í starfi klúbbsinns. Hann var líka í fyrsta landsliði matreiðslumanna á Íslandi sem tók þátt í 13 þjóða matreiðslukeppni í Kaupmannahöfn. Ísland fékk Silfur og Gull.

Á sama tíma var farið í miklar breytingar á Bessastöðum og var eldhúsið gersamlega rifið. Þá varð að kaupa allt sem til þurfti utan frá og mælti Hilmar með að Gísli Thoroddsen yfirkokkur á Brauðbæ tæki við dæminu. Gísli var opinber matreiðslumaður Frú Vigdísar þangað til hún hætti. Eftir 2 ár urðu Hilmar og Elín að loka skólanum og töpuðu þau aleigunni á dæminu bara vegna verðtryggingar.

Þarna gerðist það að Elínu var boðið starf sem ráðskona á Bessastöðum hjá Frú Vigdísi og Hilmari var boðið starf sem matreiðslumaður hjá Sjávarafurðadeild Sambandsins í Bandaríkjunum. Magnús Friðgeirsson sem var forstjóri Sambandsins í Bandaríkjunum réði Hilmar. Hilmar vann hjá þeim í 22 ár.

Fyrstu 10 árin vann hann 6 mánuði í Bandaríkjunum fór í 2-3 vikur til Belgíu og restinni á Íslandi. Eftir þessi 10 ár sameinuðust Sambandið og Sölumiðstöð Hraðfrystihúsanna og urðu Icelandic USA. Þá var ákveðið að ráða Hilmar allt árið og hann og Elín fluttu til Virginíu, keyptu hús og 2 bíla.

Starf Hilmars í Bandaríkjunum var að ferðast um öll Bandaríkin og hitta yfirkokka, halda fiski námskeið fyrir kokka og sölumenn allt til að kynna Íslenskan fisk. Síðustu 12 árin var hann að jafnaði 240 daga á ferðalagi. Flaug um 100 flug á ári. Hann heimsótti öll fylkin nema Alaska ásamt Hawaii og Puerto Rico. 2011 var Icelandic selt til Kanada og Hilmari var sagt upp.

Elín vildi fara aftur til Íslands en hún var orðin mjög veik af Parkinson. Þau fluttu til Íslands. Bjuggu fyrst í Hafnarfirði fluttu í Garðabæ og síðan í Garðinn. Elín lést 2016. 2008 var Hilmar gerður að varaforseta Alheimssamtaka Matreiðslumanna og var það í 5 ár. Í því starfi fór Hilmar til margra landa á stjórnarfundi, sýningar og ráðstefnur. Hilmar er heiðursfélagi hjá Kanadamönnum, Bandaríkjunum og nýlega Íslandi. 2018 flutti Hilmar til Spánar og býr þar með vinkonu sinni Þorbjörgu Garðarsdóttur úr Njarðvík.

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið