Freisting
Göslast áfram og krossa fingur
Það verður bara að segjast að fagmenn hér á Íslandi hafa raun og veru ekki spáð mikið í Erfðabreytt matvæli, en Matvís og Vottunarstofan Tún standa í miklu átaki um málefnið. Að mörgu er að spá og spekulera og er það skylda okkar fagmanna að gefa þessu meira gaum en raun ber vitni.
Fimmtudaginn 1. mars síðastliðinn var haldinn fundur um erfðabreyttar lífverur í Norræna húsinu. Gestur fundarins var Terje Traavik prófessor í genavistfræði við háskólann í Tromsö.
Hér að neðan er ræða formanns MATVÍS á kynningarfundi um erfabreyttar lífverur.
Góðan dag
DR. Terje Traavik prófessor frá Noregi og aðrir gestir, fyrir hönd Átaksins um Erfðabreyttar lífverur bíð ég ykkur velkomin á þennan fyrirlestur um Áhættu erfðatækninnar.
Átak um Erfðabreyttar lífverur er samstarfsverkefni Landverndar, Náttúrulækningarfélags Íslands, Neytendasamtakana, Vottunarstofunnar Túns og MATVÍS.
Ástæðan fyrir því að MATVÍS er með í þessu kynningarátaki er að við teljum okkur skylt að vita hvað er í þeim matvælum sem við erum að framleiða og matreiða úr og framreiða fyrir gesti veitingahúsa og almenna neytendur.
Samstarfshópur sem þessi á sér sennilega fáar fyrirmyndir, sem vekur upp spurningu um hvort ekki sé rétt að kanna hug Norrænu ráðherranefndarinnar og eða sambærilegra félaga á norðurlöndum um aukið samstarf á þessu sviði.
Norræna ráðherraráðið er með verkefni í gangi um Ny nordisk mad sem er hið besta mál en það þarf að gæta þess að góð ímynd hreinleika matar á norðurlöndum verði ekki eyðilögð með andvaraleysi.
Bæklingur
Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur hefur gefið út kynningarbækling um erfðatækni og þær spurningar sem hún vekur . Með þessum bæklingi viljum við vekja fagmenn í matvælaframleiðslu, almenning og stjórnvöld til aukinnar vitundar um erfðatækni og hugsanleg áhrif hennar á umhverfi okkar , heilsufar og matvælaöryggi.
Þakkir
Við viljum nota þetta tækifæri til þess að þakka þeim sem unnu bæklinginn fyrir okkur; Söndru B Jónsdóttur og Dr Micael Antonio kærlega fyrir þeirra framlag. Einnig viljum við færa styrktaraðilum sem gerðu okkur kleift að gefa út þennan bækling með fjárstuðningi sérstakar þakkir.
Í bæklingnum er fjallað um erfðavísindin, áhættu sem fylgir notkun erfðatækni, reynslu af erfðabreyttri ræktun, athuganir á heilsufarsáhrifum erfðabreyttra matvæla, og stöðu þessara mála hérlendis samanborið við Evrópu.
Það hlýtur að vera eðlileg krafa að fá :
Upplýsta umræðu Varúðarsjónarmið að leiðarljósi
Erfðatækni er tiltölulega nýtt svið þar sem tilfærslu á erfðaefni milli óskyldra lífvera er beitt til að ná fram tilteknum eiginleikum. Á undanförnum árum hafa vaknað áleitnar spurningar um afleiðingar hennar fyrir vistkerfið og heilsufar manna og dýra. Útkoma kynningarbæklings um erfðatækni er liður í viðleitni kynningarátaksins til að efla vitund almennings um kosti og galla erfðabreyttra lífvera og til að tryggja rétt neytenda og framleiðenda til hlutlægra upplýsinga um þá áhættu sem tekin er með framleiðslu þeirra og neyslu.
Varúðarreglan
Varúðarrreglan er meginregla í alþjóðlegum umhverfisrétti. Munum við gefa okkur tíma til að átta okkur á hinu margþættu, flóknu og fíngerðu orsakatengslum erfðabreytinga áður en við hagnýtum þær til framleiðslu fyrir almennan markað?
Er siðferðilega réttlætanlegt eða æskilegt að matvælum heimsins sé erfðabreytt meðan vísindin skortir ennþá þekkingu til að tryggja langtíma öryggi þeirra sem neyta framleiðslunnar?
Það vekur áhyggjur að erfðabreyttum plöntum skuli sleppt út í náttúruna áður en fullnægjandi mat á umhverfisáhrifum og heilsufarsáhættu hefur verið gert, einkum í ljósi þess að mistök á þessu sviði eru óafturkræf.
Soja, maís, bómull og repja, hafa ekki staðist væntingar sem þær áttu að uppfylla, en líftæknifyrirtækin kynda áfram undir þá goðsögn að framtíð landbúnaðar sé fólgin í erfðabreyttum plöntum.
Eru erfðabreytt matvæli verulega jafngild eða nánast eins og venjuleg matvæli?
Verulegt jafngildi er vísindalega ótraust hugtak, sem notað er til að réttlæta markaðssetningu erfðabreyttra matvæla án þess að þurfa að senda þau í gegnum nálarauga strangra prófana, sem yfirleitt er jafnan krafist þegar um tækninýjungar er að ræða.
Erfðabreytt á Íslandi?
Mörg Evrópulönd og fjöldi fylkja, héraða og sveitarfélaga víða um heim hafa lýst sig svæði án erfðabreyttra lífvera.
Ísland þarf að meta kosti þeirra stöðu, sem slík yfirlýsing kann að færa útflutningsatvinnuvegunum, t.d. ferðaþjónustu og matvælaframleiðslu, sem byggir á ímynd hins óspillta og ósnortna umhverfis.
Reglugerð um merkingu erfðabreyttra matvæla
Kynningarátakið fagnar ákvörðun umhverfisráðherra um að setja reglugerð um merkingar á erfðabreyttum matvælum. Ljóst er þó að drögin ganga skemmra en þær reglur sem lönd Evrópusambandsins hafa sett sér t.d. varðandi mengun í matvælum og rekjanleika erfðabreyttra matvæla, auk þess sem þau taka ekki til annarra veigamikilla þátta, s.s. erfðabreytts fóðurs og afurða búfjár sem alið er á slíku fóðri.
Því er jafnframt beint til umhverfisráðherra að íslensk löggjöf um merkingar erfðabreyttra afurða verði öðrum þjóðum til fyrirmyndar um rétt neytenda og framleiðenda til hlutlægra upplýsinga.
Það eru mjög skiptar skoðanir um erfðabreyttar lífverur og hver eru áhrif erfðatækni á öryggi umhverfis og neytendur. Sem leikmanni þykir mér spurningum sem er ósvarað vera of mikilvægar og of margar til þess að það sé hægt að göslast áfram og krossa fingur í þeirri von að allt sé í lagi til framtíðar. Það er merkilegt að aðilar geti ekki komist að sátt um að fara varlega og rannsaka áður en af stað er farið áhrif á umhverfið og aðrar lífverur.
Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur hvetur til aukinnar og upplýstrar umræðu með varúðarsjónarmið að leiðarljósi.
Níels S. Olgeirsson
Freisting.is mælir eindregið með því að þú hafir samband við Matvís og kynnir þér meira um Erfðbreytt matvæli, en hægt er að hringja í síma 580-5200.
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun7 dagar síðan
Slippurinn í Vestmannaeyjum tekur sitt síðasta tímabil 2025 – Gísli Matt: ástæða lokunarinnar er sú að við trúum því að allt gott taki enda
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðan
La Barceloneta er fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi sem hlýtur ICEX viðurkenningu
-
Uppskriftir5 dagar síðan
Vinsælustu uppskriftirnar árið 2024
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Þessi réttir stóðu upp úr hjá Michelin eftirlitsmönnum á árinu 2024
-
Frétt4 dagar síðan
Mest lesnu fréttir ársins 2024 á Veitingageirinn.is
-
Markaðurinn16 klukkustundir síðan
Myndaveisla – Franski bakarameistarinn Remy Corbet Daniel Jean kynnti aldagamlar aðferðir við súrdeigs- og sætabrauðsbakstur
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Fálkahúsið og Kokka verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar á árinu sem var að líða
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Ertu frumkvöðull í íslenskri matvælaframleiðslu? 20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla