Pistlar
Fyrsta landsliðskeppni Klúbbs Matreiðslumeistara í matreiðslu sem Íslendingar tóku þátt í var árið 1978
Klúbburinn var stofnaður til að auka samstarf og þekkingu matreiðslumanna varðandi matreiðslufagið, en á þeim tíma hafði Félag Matreiðslumanna engan áhuga á slíkum málum, af einhverjum ástæðum.
Í upphafi voru inntökuskilyrði að menn væru með meistarabréf í matreiðslu og hefðu unnið minnst 3 ár eftir að fá meistarabréf. Fljótlega gekk klúbburinn í samtök kokka á norðurlöndunum Nordisk Kökenchef Federation NKF. Með því samstarfi varð klúbburinn sá aðili á Íslandi sem hafði ábyrgð á að senda kokka í matreiðslukeppnir fyrir Íslands hönd.
1977 var okkur boðið að taka þátt í alþjóðlegri matreiðslukeppni í Bella Center í Kaupmannahöfn næsta ár og vorum við Gísli Thoroddsen og Sigurvin Gunnarsson valdir af stjórn Klúbbsins til að taka þátt í keppninni fyrir Íslands hönd. Við þrímenningarnir fengum sendar reglur keppninnar frá Dönum og ég held við höfum lært þær utanað.
Þessi keppni var kölluð alþjóðleg þar sem 13 þjóðir höfðu skráð sig. Keppnin skiptist í kalda rétti sem voru 8 mismunandi réttir fyrir 8 manns hvor og heitan málsverð fyrir 100 manns. Engin okkar hafði nokkru sinni séð alvöru matreiðslukeppni, hvað þá heldur keppt áður. Við fengum að nota húsnæði Matreiðsluskólans sem var þá í Sjómannaskólanum. Mig minnir að við höfum æft svo til alla sunnudaga í 6-7 mánuði.
Við sömdum við veitingastaðina sem við unnum á að við fengjum hráefnið frítt. Við byrjuðum snemma að morgni og um 5 leitið komu nokkrir eldri félagar úr Klúbbnum og rifu allt í tætlur sem við vorum búnir að gera þann daginn. Smátt og smátt fór þó að koma svipur á málin og nokkru fyrir ferðina til Kaupmannahafnar var allt til. Það er alveg klárt í mínum huga, að af okkur þremur var Gísli hugmyndaríkastur.
Við flugum til Danmerkur með slatta af hráefni sem var Íslenskt svo sem hangikjöt, humar og lunda fyrir kalda matinn og lúðu, rækjur og lambalæri fyrir heita matinn.
Okkur var skaffað pláss í eldhúsi í stórum kokkaskóla í Kaupmannahöfn. Við höfðum 24 tíma til að laga kalda matinn. Það voru 3 önnur lönd að laga sitt kalda borð í skólanum. Eins og áður sagði höfðum við fengið keppnisreglurnar og þar var strangt tekið fram að allt átti að vera lagað á staðnum frá grunni.
Við vorum byrjaðir á fullu að laga hina ýmsu rétti og var einn af þeim svokallað Galantin en það er nokkurskonar úrbeinuð kjötvefja sem er þannig samansett að þegar hún er skorin í sneiðar kemur í ljós fallegt munstur af kjöti, farsi, hvítri fitu og grænmeti. Þegar við vorum að byrja að laga okkar, sáum við kokk á næsta borði koma með kælikassa, taka uppúr honum 3 tilbúin Galantín. Kokkurinn skar þau í sundur, skoðaði vandlega munstrið í hverju og einu, valdi það besta og henti hinum í ruslið. Við sáum líka hvar menn komu með útskornar skreytingar, tilbúnar á pappaspjöldum húðaðar með hlaupi. Þarna sáum við svindl af fullkomnustu gerð.
Tveir kokkar frá öðru landsliði komu líka yfir að okkar borði til að kíkja á okkur og sagði einn þeirra “ Mikil vinna drengir”.
Það var svokallaður eldhúsdómari á vappi um eldhúsið og er nokkuð öruggt að hann hefur séð eitthvað af þessu en ekki gert í því að vísa mönnum úr keppni, eins og reglurnar sögðu skýrt um.
Allavega kláruðum við okkar vinnu á tíma og fötin og speglarnir með kalda matnum á voru sett í sendiferðabíl og keyrð í Bellacenter þar sem maturinn var svo til sýnis frá 10 til 18 fyrir almenning.
Ég verð að viðurkenna að ég var svo þreyttur eftir nóttina að ég man ekki neitt eftir ferðinni með sendibílnum og hvernig við komum matnum fyrir á sýningarborðinu. Við heyrðum eina sögu að þegar við vorum búnir að stilla upp hafi einn danskur kokkur komið inn á skrifstofu með klósettrúllu og sagði sínum mönnum að nú gætu þeir skeint sig því að Íslendingarnir væru búnir að stilla upp.
Það var mikil umferð við íslenska borðið þar sem það var áberandi öðruvísi en hin borðin. Ástæðan sú að við höfðum aldrei séð svona keppnir áður og höfðum því ekkert til að miða okkar vinnu við. Næsta dag þurftum við að elda heitan mat fyrir 100 manns í veitingastað þjóðanna.
Þegar að verðlaunaathöfninni kom áttum við ekki von á að fá nein verðlaun en fengum öllum að óvörum gull fyrir kalda matinn og silfur fyrir heita matinn. Ég fékk líka sérstök verðlaun, stóran keramik disk frá Dansk Kokkeforening stofnað 1913 fyrir frumlegasta fatið á keppninni sem var Lundi í hlaupi. Einnig fengum við sérstök verðlaun frá Gastronomisk Landsforbund, fyrir frumleika litla leirskál.
Þjóðin sem hafði svindlað í keppninni var fyrir neðan okkur í stigum þótt þeir væru búnir að taka þátt í svona keppni í all mörg ár. Það er ástæða fyrir að menn eru með eldhúsdómara.
Það voru mjög þreyttir en ánægðir þrímenningar sem flugu heim næsta dag. Á þessum árum voru litlir peningar til hjá KM og urðum við því að leggja allt út úr eigin vasa , flug og mat úr eigin vasa. Hótelið lagði keppnin til. Einnig þurftum við að leggja út fyrir því sem var keypt fyrir matreiðsluna í keppninni í kaupmannahöfn.
Það var ekki fyrr enn all mörgum árum seinna að orðin “ Styrktar eða stuðningsaðili” komst inn í orðabækur. Mig minnir að á þessum árum hafi KM haft um 25 meðlimi og einu peningarnir sem til voru, voru lág félagsgjöld.
© Höfundur er Hilmar Bragi Jónsson matreiðslumeistari
-
Uppskriftir5 dagar síðan
Meðlæti með jólamatnum
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Girnilegt camembert jólatré með döðlu og pekan krönsi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Mikil uppbygging framundan á Hofsstöðum – Veitingastaðurinn með eigin framleiðslu og hráefni úr heimabyggð
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Ekta rjómaís með hvítu súkkulaði og piparkökum – Fullkominn á veisluborðið yfir hátíðarnar
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Hátíðar opnun Hafsins
-
Frétt1 dagur síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Hátíðarkveðjur