Vertu memm

Garðar Agnarsson

Agnar opnar hágæða skyndibitastað á Íslandi

Birting:

þann

Agnar Sverrisson matreiðslumaður

Agnar Sverrisson matreiðslumaður

Niðurnídd lúgusjoppa við Miklubraut fær á sig stjörnuglampa í júlí þegar Michelin-matreiðslumeistarinn Agnar Sverrisson opnar þar hágæða skyndibitastað og teflir fram tveimur mjög klístruðum og djúsí réttum.

Gamli skúrinn við Miklubraut mun senn lifna við og bjóða upp á besta bitann í bænum, að sögn Agnars. Samsett mynd: skjáskot af google korti

Gamli skúrinn við Miklubraut mun senn lifna við og bjóða upp á besta bitann í bænum, að sögn Agnars.
Samsett mynd: skjáskot af google korti

Það hefur náttúrlega ekkert gengið upp í þessum skúr hingað til en það þykir mér bara betra og mjög skemmtileg áskorun,“ segir Agnar sem í fyrstu fussaði og sveiaði þegar vinur hans, Gylfi Harðarson matreiðslumaður, stakk upp á þeir opnuðu einstakan skyndibitastað í gömlu Bæjarnestis sjoppunni við Miklubraut, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Við Gylfi lærðum saman til kokks og höfum grínast með að opna saman veitingastað heima á Íslandi í gegnum tíðina. Ég hvatti hann svo í rælni til að svipast um eftir húsnæði í miðbænum en eftir árangurslausa leit ók Gylfi fram hjá skúrnum góða á Miklubraut og sendi mér myndir.  Mér fannst hugmyndin af og frá í fyrstu en þegar ég sá lúguna og möguleikann á heimteknum lúgumat varð ég viss um að skúrinn væri betri staður en nokkur annar

, segir Agnar brosmildur og fullur tilhlökkunar.

Agnar hefur undanfarin sextán ár búið í Lundúnum og rekur þar Michelin-veitingastaðinn Texture við Portman Square og þrjá vínbari undir nafninu 28°50° sem bjóða upp á léttan franskan mat með góðum vínum á góðu verði.

Ég þori nú ekki að lofa Michelinstjörnu á Miklubraut en við viljum gera þetta eins gott og það gerist og vöndum okkur í hvívetna.  Þannig vinnum við

, segir Agnar sem hefur metnað í fyrirrúmi.

Bragðsterkt af gömlum beljum
Þeir Agnar og Gylfi hafa umturnað skúrnum á Miklubraut, með dyggri hjálp föður Agnars, en til stendur að opna staðinn um miðjan júlí.

Við erum að opna nokkuð sem aldrei hefur sést né þekkst á Íslandi og bjóðum eingöngu upp á tvo rétti á matseðli; ostborgara og svínarif. Mér hefur lengi þótt vanta slíkan stað heima, þar sem boðið er upp á toppgæða skyndibita sem hægt er að elda á skammri stund. Hér á Englandi njóta slíkir staðir vinsælda því fólk kann að meta að geta fengið sér almennilega hamborgara, svínarif eða annað gómsætt án þess að það taki langan tíma að lesa matseðil eða elda matinn.

Agnar hefur lagt mikla vinnu í hamborgaragerðina og meðal annars smakkað blindandi fjórtán prufur af nautakjöti frá íslenskum framleiðendum, til þess eins að finna rétta kjötið.

Hamborgari er ekki bara hamborgari, því kjötið skiptir öllu máli.  Ostborgarinn á nýja staðnum verður töluvert þykkari en gengur og gerist, fituprósentan einstök og kjötið ekki af ungnautum heldur gömlum beljum, sem er mun bragðbetra. Það skiptir engu af hvoru kyni dýrsins kjötið kemur heldur er staðreynd að ungnautakjöt er mun bragðminna.  Það féllu bara allir fyrir auglýsingabrellu um ungnautakjöt á árum áður og halda enn að það sé best í heimi, en svo er svo sannarlega ekki.

Agnar lofar hreinni upplifun í skyndibita, bragðbesta matnum og besta verðinu í bænum. Hann hefur meðal annars látið sérsmíða robatagrill í Bretlandi sem gefur sterkt reykjarbragð í kjötið.

Við leggjum áherslu á töff innviði í hönnun og úrvals hráefni í æðislegum mat. Hægt verður að borða inni og sækja mat í lúguna. Þarna verður gaman að koma, þarna gerast ævintýrin og verður gaman að upplifa meira mannlíf og eril við Miklubraut.

Raymond Blanc bítur fyrsta bitann
Agnar mætir með frægasta kokk Bretlands á opnun staðarins í júlí, sjálfan Raymond Blanc.

Raymond verður fyrstur til að smakkar ostborgarann og um leið set ég nafn mitt á staðinn og stend og fell með því hvernig gengur. Ég færi enda ekki út í þetta nema ég virkilega vissi að hugmyndin væri góð.

Agnar segir enga minnkun að því fyrir dáðan kokk að elda hamborgara.

Ég lít svo á að sé maður með topp hráefni skipti engu hvort maður snúi hamborgurum eða eldi dýrindis nautasteik. Það þarf að bera sömu virðingu fyrir því öllu.

Nýi staðurinn við Miklubraut hlýtur nafnið Dirty Burgers & Ribs.

Því allt verður þetta dálítið „dirty“ og djúsí og sannarlega verður maður dálítið kámugur við að borða svínarif og borgara. Nafnið á því vel við

, segir Agnar sem lofar því að sýna sig og sjá aðra á Dirty Burgers & Ribs þegar hann á erindi heim til Íslands.

Ég mun alltaf kíkja á stemninguna og gaman að hitta fólk og spjalla. Ef ég er í stuði steiki ég einn og einn hamborgara og klístruð svínarif. Ekki spurning,

, segir hann og hlær.

 

Greint frá í Fréttablaðinu.

Mynd: Garðar Agnarsson Hall

† 1956-2015 | Sverrir er matreiðslumeistari, en hann lærði matreiðslu á Hótel Sögu og var við nám í hótelstjórnun í Álaborg. Hann hefur starfað mjög víða, m.a. á veitingastöðum í Englandi og Danmörku. Einnig á stöðum hér heima, m.a. Hótel Sögu, Óperu, Holliday Inn, Ránni og Þotunni í Keflavík, Fossnesti á Selfossi. Sverrir er beinskeyttur, opinskár og harðsoðinn penni.

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið