Vertu memm

Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel

Nýr og áhugaverður staður – Loftið Lounge & Cocktail Bar

Birting:

þann

Föstudaginn 18. janúar síðastliðinn opnaði nýr og áhugaverður staður í því húsnæði sem restaurant La Primavera var áður til húsa. Nánar tiltekið á annari hæð í Austurstræti 9.

Nú hefur efri hæð Egils Jacobsens hússins fengið nýtt hlutverk og má segja að hlutaðeigendur eigi hrós skilið fyrir sérlega skemmtilega og metnaðarfulla framsetningu á starfseminni. Loftið eins og staðurinn heitir, hefur á að skipa einvala starfsliði, og er þar hver öðrum fremri enda hafa allir barþjónar á að skipa verðlaunasæti á sínu sviði.

Danfríður Árnadóttir, Halldór Ólafsson eigendur og Andri Davíð Pétursson yfirbarþjónn staðarins

Í samvinnu við Forréttabarinn
Þá hefur Loftið tekið upp samvinnu við Forréttabarinn um smárétti sem gestum gefst kostur á að gæða sér á jafnhliða sérlega vel samsettu úrvali kokteila sem eiga margir hverjir rætur í klassískum kokteilum en eru stílfærðir af kokteilmeisturum staðarins með það fyrir augum að glæða þá nýjum og ferskum blæ en byggja þó á gamalli hefð.

Kokteilmeistararnir og matreiðslumeistarinn Guðmundur Björnsson sem lærði hjá Fiskifélaginu eru samstíga hópur sem leggur metnað sinn í starfið en áhugi og ástríða þessara ungu snillinga er slík að þeir leiða vikulega saman hesta sína ( þriðjudaga ) og spreyta sig í tilraunastofunni við að útbúa nýja og framandi drykki og rétti sem þeir síðan bjóða viðskiptavinum sínum með sérstakri kynningu en kokteil og matseðill staðarins er þar af leiðandi breytingum háður og má segja að Loftið bjóði upp á eilífðar partý fyrir bragðlaukana í mat og drykk.

Líflegar uppákomur
Allskyns uppákomur munu svo verða á staðnum til að lífga upp á andrúmsloftið en til þess hafa barþjónarnir sérlega góða aðstöðu enda var öll vinnuaðstaða á barnum hönnuð af yfirbarþjóni staðarins Andra Davíð Pétursyni og má með sanni segja að þetta sé drauma vinnustaður barþjóna. Vinnustöðvar kokteil barþjónanna eru þrjár og miðaðar út frá þeirra sérsviði og öll aðstaða eins og best verður. Innviðir barsins eru í raun svolítið eins og eldhús þar sem allt er til alls, og allt forunnið við hendina sem og frosin glös.

Barinn er settur upp eins og eyja í miðjum salnum. Harðviður og sérinnfluttur málmur með silfuráferð ofan á barborðinu á sinn þátt í að gefa barnum glæsilegt yfirbragð sem og frumleg lýsing. Tónlistin á Loftinu er eins og annað á þessum stað, útspekulera með það fyrir augum að fullkomna staðinn og undirstrika það andrúmsloft sem eigendurnir vildu ná fram. Tveir Dj.ar skipta með sér að þeyta skífunum að jafnaði, en það eru þeir Alexander ( Bob blondie ) og Kristinn Gunnar Blöndal ( KGB ), en svo munu gesta Dj.ar koma og sjá um tónlistina til að fyrirbyggja stöðnun.

Aðstaðan fyrir Dj.ana er skemmtilega uppsett. Hún er nett en það eru líka græjurnar og hljómburður er góður í húsnæðinu. Tónlist er ekki spiluð hærra en svo að það er hægt að tala saman á staðnum, en slíkir staðir eru fágætir í Reykjavík. Partý tónlist, Funk, Disco, House og fl. stefnur með góðu lagavali og ekkert óvænt eða óþægilegur kemur inn á milli heldur er allt miðað að því að halda stemningunni á staðnum sem er í senn kyngimögnuð, létt og seyðandi.

Það má finna að Dj-inn ( Bob blondie ) sem spilaði umrætt kvöld, er blaðamaður freistingar leit við, er með allt á hreinu um hvernig skapa skal rétta andrúmsloftið og á hann góðan þátt í að ná fram þeirri stemningu sem staðurinn getur státað af. Þetta er staður þar sem gott er að koma og sitja lengi, spjalla og njóta augnabliksins í hlýlegu og nýstárlegu umhverfi með skemmtilega tilvísun í fortíðina.

Tekist vel að nýta rýmið og að hafa fjölbreytileika í bland
Innanhússarkitektinn, Hálfdán Pedersen hefur getið sér gott orð fyrir verk sín hér í borg og hefur hann t.a.m. séð um hönnun KEX hostel við Skúlagötu sem hefur verið einkar vel tekið. Hálfdán í samvinnu við Róshildi Jónsdóttur leitaði til fortíðar hússins við val hluta í rýmið og er klæðskerasaumur, gínur og annað er tengist Agli Jacobsen látið ráða ríkjum og tekst það vel.

Freyr Frostason arkitekt sem er vel þekktur fyrir verk sín ( KEX hostel og Slippurinn ( Marina Hotel ) ) teiknaði staðinn og hefur honum tekist vel að nýta rýmið en um leið að gera ráð fyrir mörgum í sæti og að hafa fjölbreytileika í bland við formfestu að leiðarljósi um leið og hann nær að láta lýsingu og veggi njóta sín í rýminu án þess að skyggja á fyrri arkitektúr hússins sem fær að njóta sín í góðu samspili.

Eigendur Loftsins eru Halldór Ólafsson og Danfríður Árnadóttir en þau áttu skemmtistaðinn REX á þeim tíma sem sá staður gekk hvað best. Andri Davíð Pétursson er yfirbarþjónn staðarins en hann státar af íslandsmeistaratitli barþjóna í Grand Mariner. Andri var áður yfirbarþjónn á Kolabrautinni og þar áður veitingastjóri á Sjávargrillinu.

Lagt er upp með að höfða til 27 ára og eldri og er verði drykkja og rétta stillt í hóf.

Opnunartími er frá kl. 16:00 e.h og til 04:00 um helgar ( hætt að hleypa inn um kl. 02:00 ) en annars til 01:00. Happy hour er frá kl. 17:00 -19:00.

Alexandre Lampert er menntaður barþjónn á heimsklassa
Alexandre Lampert kemur frá Gognac héraðinu í Frakklandi og er yfirbarþjónn á Bar Louise. Hann er ættaður frá borginni Libourne sem er í suðvestur Frakklandi sem telst vera höfuðborg vínframleiðslu í norður Gironde.

Alexandre Lampert er menntaður barþjónn á heimsklassa og hefur undanfarin ár unnið til fjölda verðlaunasæta í barþjónakeppnum þar í landi og telst í hópi færustu barþjóna samtímans. Það er því mikil eftirvænting meðal barþjóna Loftsins að fá svo hátt skrifaðan gest til sín þá er Food and Fun hátíðin mun standa yfir.

Það má segja að Loftið sé staður sem henti vel breiðum hópi fólks og má reikna með að margir muni taka ástfóstri við staðinn og það sem þar er boðið uppá.

Fróðleiksmoli um sögu hússins
Til gamans er ekki úr vegi að setja fram nokkra fróðleiksmola um sögu hússins.
Austurstræti 9 var byggt árið 1921, og teiknaði Jens Eyjólfsson húsið sem var eitt glæsilegasta hús Reykjavíkur í þá daga. Húsið er sérstakt í byggingasögu Reykjavíkur þar sem það er fyrsta húsið þar sem steypt stuðlaberg kemur við sögu. Ennfremur er húsið sérstakt þar sem þar eru svokölluð júgend einkenni áberandi, en þau einkennast af útfærslum á jurtaskrauti sem víða má sjá á byggingunni.

Verslun Egils Jacobsen var stofnuð árið 1906, en hún var með virtari verslunum síns tíma og starfrækt í Austurstræti 9 allt frá því húsið var byggt ( 1921 ) þar til verslunin var lögð niður af þriðju kynslóð fjölskyldunar árið 1997 þegar reksturinn var hættur að borga sig í samkeppni við nýtt verslunar og neyslumynstur í Reykjavík, þar sem Kringlan og aðrir verslunarkjarnar voru farnir að taka þorrann af versluninni frá miðbænum.

Verslun Egils Jacobsen var með starfsemi sína á jarðhæð hússins ( þar sem nú er Laundromat Café ) og í hluta efri hæðar. Málaflutningsstofa og síðar fasteignasala Vagns E. Jónssonar hæstarrétarlögmanns ( stofnuð 1947 ) var um áratugaskeið með aðsetur á annari hæð Austurstrætis 9 eða allt til ársins 1975 en hún var á þeim tíma stærsta og virtasta fasteignasala landsins.

Veitingastaðurinn La Prima Vera var um árabil rekinn við góðan orðstír í því rými þar sem Loftið er nú. Það má segja að almennt hafi gott orðspor fylgt þeirri starfsemi sem í húsinu hefur verið, og óskum við hjá Freistingu.is eigendum Loftsins til hamingju með vel heppnaðan stað á besta stað í bænum.

Höfundur er: Snorri Ragnar Bragason

Mynd: Brynjar Snær

Viltu birta grein á Veitingageirinn.is? Sendu okkur póst [email protected]. Með pistlinum þarf að fylgja nafn höfundar, titill og mynd.

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið