Veitingarýni
Þetta er ævintýri fyrir bragðlaukana – The Bridge á Marriott Courtyard í Reykjanesbæ
Ævintýri gerast enn, svo mikið veit ég því ég lenti í einu slíku í gærkveldi er ég og kær vinkona fórum út að borða á veitingastaðnum The Bridge á Marriott Courtyard í Reykjanesbæ.
Matarmenningin og veitingahúsaflóran á Reykjanesinu hefur tekið gríðarlegt stökk undanfarið og með tilkomu The Bridge hefur bara gott „bestnað“, enda eru hér á ferð framúrskarandi fagfólk í hverju plássi, svo maður noti sjómannamál á þessari fornu verstöð.
En eins og áður segir að þá fór ég með kærri vinkonu út að borða í gærkvöldi og þetta var löngu kærkomin upplifun og það var gaman að fara með fylgdarkonunni sem er ekki sérlega veraldarvön þegar kemur að veitingastaða hangsi, það var dálítið öðruvísi upplifun með miklum lýsingarorðum, ég mæli með slíku.
Það var tekið vel á móti okkur þegar við komum, við fengum gott borð útaf fyrir okkur en þó svo að við sáum vel yfir veitingastaðinn. Ég er orðinn nokkuð sjóaður í að heimsækja veitingastaði og því hafði ég komið nokkrum dögum áður og tekið myndir af húsinu, matnum og spjallað við yfirkokkinn Kacper Bienkowski ásamt veitingastjóranum Sigrúnu Ýr.
Sigrún hafði þá farið með mig víða um hótelið sem er glæsilegt í alla staði og einnig hafði ég heilsað upp á hótelstjórann, Hans Prins.
Glæsilegt hótel
Hótelið er stórglæsilegt og það kom á óvart hversu vel hefur tekist að blanda saman skemmtilegum litum og formi svo að úr yrði notaleg og þægileg stemming. Hér hefur verið hugsað fyrir hverju smáatriði og veggir prýða flottar myndir eftir listakonuna Sossu.
En hér vorum við sem sagt komin og okkur tjáð það af okkar frábæra þjóni að yfirkokkurinn, Kasper, væri að taka til sjö rétta matarævintýri, sem átti eftir að koma okkur verulega á óvart.
Frábær matur
Eftir létt amuse-bouche og svalandi freyðivín var okkur færður grillaður geitaostur, eitthvað sem mér yfirleitt finnst ekkert varið í en hér verð ég að bakka. Frábær réttur sem kom verulega á óvart. Skemmtilega útfærður, spennandi litir og góð bragðblanda.
Næst fengum við ótrúlega gott rauðvín, Ramon Bilboa Reserva sem varð þess valdandi að ég ákvað að skilja bílinn eftir. Það er er ekki oft sem manni er borið svona sælgæti sem passaði svo snilldarvel við næsta rétt.
En næsti réttur var Beef tartare með sveppaútfærslu, trufflumæjó, hægeldaðri eggjarauðu og öðru sælgæti. Mér finnst þessi gamaldags réttur frábær og sérstaklega eins og hér þar sem búið er að klæða hann í ný föt. Bara eitt orð, sælgæti.
Vinkona mín gerði sitt besta til að sýnast veraldarvön en eftir hetjulega tilraun þá dró ég hana glaður að landi þar sem þetta var of framandi fyrir hennar smekk, enda alinn upp í sveitinni á feitu kjöti og hertum fiski.
Næst sveif inn til okkar Santa Cristina Pinot Grigio sem er mjög passandi við næsta rétt en það var Tuna Tataki. Ég er ekki túna „fan“ en þessi réttur er sér á bát og hér kenndi ýmissa grasa en þetta var eitthvað sem féll ótrúlega vel í kramið hjá minni fylgdarkonu sem lýsti honum svo skemmtilega sem fullnægingu bragðlaukanna.
Við hlógum mikið af þessu en næst var það lamba kóróna, fullkomlega steikt, og varlega krydduð, þannig að bragðið naut sín algjörlega.
Með þessu fengum við Trivento Malbec Privat Reserva sem passaði mjög vel . Temmilega þurrt og milt vín þannig að lambið fékk að njóta sín. Frábær réttur eða eins og mín kæra fylgdarkona sagði réttilega: „Þetta er ævintýri fyrir bragðlaukana“.
Þegar hér var komið sögu kom okkar frábæri þjónn og bauð okkur að smakka á bjórnum sem er bruggaður fyrir þau út í Garði. Bjórinn var eins og sumardagur í glasi, svo ferskur, svalur og bragðgóður að til og með ég sem er minna hrifin af bjór varð að gefa mig.
Stúlkan sagði að bjórinn hefði orðið svo vinsæll að það hefði komið fyrir að allar birgðir hefðu klárast og þá var ekki verið að tala um nísku í vöruinnkaupum.
Þá var það komið og hér var enn einn frábær réttur kominn. Laxinn var pönnusteiktur og borinn fram með yndislegri sósu gerðri af fiskisoði, hvítvíni og Calvados, borið fram með rótargrænmeti og maukaðar kartöflur og toppað með sýrðum fennel og fjörukáli.
„Geggjað“ var orðið sem ég fékk þegar ég spurði vinkonu mína hvað henni fyndist og síðan lágt „heldur þú að það verði horft á mig ef ég sleiki diskinn?“ sagði hún og hló.
Með þessu var borið Rosemounte GTR sem er gott vín, kannski aðeins of sætt fyrir feitan fisk en þetta var samt passandi þar sem sýran var nóg í fennelinum.
Að mínu mati þá var þetta besti rétturinn þar sem ég er fiskmaður en ég segi það satt að það var erfitt að velja á milli.
Frábær eftirréttur
En síðan var það rúsínan í pylsuendanum og það voru tveir desserta sem okkur voru bornir. Sá fyrri er Skyr Panna Cota ferskur, góður og spennandi. Hann kveikti vel á bragðlaukunum enda er hér verulega verið að leika með mismunandi bragð sem ekki eru að öllu jöfnu í eftirréttum. Spennandi.
En síðan var það einn af betri eftirréttunum sem ég hef smakkað lengi. Það er sama hvað menn segja en það eru fáir matreiðslumenn sem að mínu mati eru góðir í eftirréttum, en hér hafði vel til tekist.
Hér er það djúpsteikt ítalskt bakels (pastry) fyllt með heimagerðum Ricotta og toppað með vanillu gelato. Ég ætla ekkert að segja meira um þennan rétt annað en það er þess virði að gera sér ferð suður til Keflavíkur eingöngu til að bragða þetta listaverk. Einu orði frábær réttur.
Ég ætla að stoppa hér en ég gæti haldið mun lengur áfram enda var kvöldið frábært, maturinn magnaður, þjónusta til fyrirmyndar og umhverfið snilld. En það var fleira sem sem sló mig því þegar ég skoðaði matseðilinn að þá voru verðin þannig að þau voru til háborinnar fyrirmyndar.
Ég hef verið að sjá matseðla undanfarið þar sem t.d fiskur dagsins er hátt í 4000 krónur en hér er lambið á 3600 kr sem er frábært verð. Gistingin er undir því sem ég víða að sjá en gæðin á mat og þjónustu virkilega góð.
Lifið heil en þetta var ánægjuleg upplifun.
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
100 myndir frá hátíðarkvöldverði KM
-
Keppni4 dagar síðan
Þessir veitingastaðir og Íslendingar eru tilnefndir til BCA 2025 – Myndaveisla
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Fyrsta heildstæða kennsluefnið í matreiðslu gefið út eftir 70 ára kennslusögu – Myndir frá útgáfuteitinu
-
Keppni4 dagar síðan
Ertu lærður matreiðslumaður eða matreiðslunemi og langar til að komast í ungkokkalandsliðið?
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Uppskrift – Rjómalöguð tómatsúpa og grillað ostabrauð
-
Nemendur & nemakeppni2 dagar síðan
Reynir Grétarsson matreiðslumeistari með áhugavert fræðsluerindi um súkkulaðigerð – Myndir
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Uppskrift – Mozzarella fiskréttur
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Hótel og heilsulind Bláa Lónsins á meðal 10 bestu hótelum heims – Michelin