Vertu memm

Pistlar

Sætar kartöflur – sætuhnúðar

Birting:

þann

Sætar kartöflur – sætuhnúðar

Sætar kartöflur – sætuhnúðar

Vinsældir sætra kartafla hafa aukist mikið hér á landi eins og annars staðar heiminum undanfarna áratugi. Þrátt fyrir nafnið eru sætar kartöflur fjarskyldir ættingjar kartafla og réttara að kalla þær sætuhnúða

Neysla á rótargrænmeti eins og rófum, radísum og gulrótum, hefur dregist talsvert saman á Vesturlöndum síðustu áratugina. Þrátt fyrir það er rótargrænmeti í hitabeltinu, taro, kassava, maka og fleiri tegundir, um 20% af samanlagðri fæðu mannkyns og í sumum löndum Afríku hátt í 50% af fæðu íbúanna.

Áætluð heimsframleiðsla á sætu hnúðum er um 112 milljón tonn á ári. Kína er langstærsti framleiðandinn með tæp 72 milljón tonn. Malaví er annar stærsti framleiðandinn með tæp sex milljón tonn, Nígería er í þriðja sæti með 4,2 og Tansanía því fjórða með ársframleiðslu á um 3,9 milljónum tonna.

Önnur lönd sem framleiða talsvert af sætuhnúðum eru Indónesía, Indland, Víetnam, Afríkuríkin Rúanda og Úganda, auk þess sem einhver framleiðsla er í Suður-Ameríku og Eyjaálfunni.

Sætar kartöflur – sætuhnúðar

Bandaríkin er stærsti útflytjandi sætuhnúða í heiminum í dag og eru Kanadamenn, Hollendingar og Bretar stærstu kaupendurnir.

Talsvert er framleitt af sætuhnúðum í suðurríkjum Bandaríkjanna, Norður-Karólínu, Mississippi og einnig í Kaliforníu. Þrátt fyrir að framleiðsla Bandaríkjanna á sætuhnúðum sé ekki nema um 1% af heimsframleiðslunni og að þeir flytji ekki út nema 7,6% af sinni framleiðslu eru um 1/3 af sætuhnúðum á heimsmarkaði upprunninn í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru því stærsti útflytjandi sætuhnúða í heiminum í dag og eru Kanadamenn, Hollendingar og Bretar stærstu kaupendurnir.

Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands eru flutt inn um 316,2 tonn af ferskum, þurrkuðum eða frystum sætum kartöflum á ári. Langmest af sætuhnúðum sem fluttir eru til landsins koma frá Bandaríkjunum.

Samkvæmt upplýsingum á vef Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) eru sætar kartöflur í sjöunda sæti yfir þær plöntur sem mest er neytt af í heiminum. Auðvelt mun vera að auka ræktun þeirra, samkvæmt FAO, og draga þannig verulega úr hungursneyð í mörgum af fátækustu löndum heims.

Grasafræði

Sætuhnúðar eru af vafklukkuætt en ekki náttskuggaætt eins og kartöflur. Vafklukkuætti er stór með 60 ættkvíslum og 1600 tegundum.

Fjölær jarðlæg eða klifurjurt sem getur orðið um sex metra að leng. Út frá stönglunum vaxa stakstæð blöð sem eru breytileg að lögun og stærð. Blöðin sem geta verið 5 til 15 sentímetrar að lengd og breidd, egg-, nýrna-, hjarta- eða handlaga vaxa á allt að 50 sentímetra löngum blaðstilk og ljósgræn yfir í að vera rauð. Blómin nokkur saman í hnapp, lúðurlaga, hvít með bláu eða fjólubláum blæ og oft blá í blómbotninum. Blómstrar rétt fyrir sólarupprás en blómin standa stutt. Myndar ílangt mjölmikið og þétt rótarhnýði með slétta húð. Gul, rauð, appelsínugul, hvít eða fjólublá að innan.

Sum afbrigði myndar fræ en sætu hnúðum er yfirleitt fjölgað með jarðlægum stönglum sem skjóta auðveldlega rótum. Yfirleitt einær í ræktun.

Sætar kartöflur – sætuhnúðar

Uppruni sætuhnúða er í Mið-Ameríku en í dag eru þeir ræktaðir í hitabeltinu um allan heim

Uppruni og útbreiðsla

Uppruni sætuhnúða er í Mið-Ameríku en í dag eru þeir ræktaðir í hitabeltinu um allan heim en mest er neytt af þeim í Suðaustur-Asíu, eyjum Kyrrahafsins og latnesku Ameríku.

Sætuhnúðar eru ekki þekktir í sinni náttúrulegu mynd og því ljóst að plantan hefur verið lengi í ræktun. Líkleg er talið plantan sé ræktunarafbrigði Ipomoea trifida sem meðal annars finnst villt í Mexíkó.

Fornleifarannsóknir í Mið-Ameríku benda til að hún hafi verið í ræktun í 8.000 til 10.000 ár og það gerir hana að einni elstu plöntu í ræktun sem vitað er um. Minjar um ræktun hennar á 14 og 13 öld fyrir Krist hafa fundist í Peru og víðar í Suður-Ameríku.

Kristófer Kólumbus sem rambaði á eyjar í Karíbahafinu árið 1492 í stað þess að finna siglingaleið til Indlands og sagður hafa fundið Ameríku fyrir vikið. Hann flutti með sér nokkrar sætuhnúða til Spánar þegar hann sneri heim og þaðan var plantan flutt til Afríku og Asíu.

Seinna fundust í ræktun sætuhnúðar á nokkrum eyjum í Pólýnesíu. Ekki er vitað hvernig þeir bárust þangað en norski landkönnuðurinn Thor Heyerdahl taldi það sönnun um siglingar milli Suður-Ameríku og eyja í Pólýnesíu á reyrbátum löngu fyrr en ætlað er. Kenning Heyerdahl um að menn hafi flutt sætuhnúða yfir Kyrrahafið fyrir tíma landafunda Evrópumanna hefur verið gagnrýnd með þeim rökum að ekkert mæli gegn því að fræ eða rætur hafi getað borist þessa leið með fuglum eða rekavið.

Spánverjar fluttu með sér sætuhnúða til Filippseyja um miðja sextándu öld og planta barst til Kína 1594. Kínverjar tóku henni fagnandi og í dag er hún hluti að daglegri fæði margra þar í landi. Sætuhnúðar bárust til Japan um svipað leyti og jókst neysla hennar þar í kjölfar uppskerubrests á hrísgrjónum.

Talið er að Sir Francis Drake hafi fyrstur manna flutt sætuhnúða í Englands

Talið er að Sir Francis Drake hafi fyrstur manna flutt sætuhnúða í Englands.
Mynd: Wikimedia Commons. Birt undir COM:USGOV/wga.hu – leyfi.

Talið er að Sir Francis Drake hafi fyrstur manna flutt sætuhnúða í Englands og enski grasafræðingurinn og grasalæknirinn John Gerard skrifaði um sætuhnúða í í bók sinni Generall historie of Plantes sem kom út árið 1597. Gerard lýsir útliti plöntunnar og segir frá neyslu hennar og segir hana borðaða bæði soðna og steikta í olíu og ediki og kryddaða með salti. Auk þess sem þær voru sykraðar og seld sem sælgæti. Að sögn Gerald eru sætuhnúðar nærandi, líkamlega styrkjandi og kynörvandi. Vinsældur sætuhnúða jukust mikið meðal aðalsins á Bretlandseyjum í kjölfar skrifa Gerald og sagt er að Hinrik VIII hafi neytt þeirra í stórum stíll til að viðhalda karlmennsku sinni.

Josephina, eiginkona Napóleons, hreifs mjög af sætuhnúðum og lét rækta þá í matjurtagörðum hirðarinnar. Í framhaldinu urðu þeir mjög vinsælar í París og sagt er að ungmeyjar þar í borg hafi gefið vonbiðlum sínum sætuhnúða til að lægja tilfinningahita þeirra.

Elstu heimildir um ræktun á sætuhnúðum í Bandaríkjunum Norður-Ameríku er meðal evrópskra landnema í Virginíu-ríki árið 1648 og New England 1764. Í dag er hefð í Bandaríkjunum að borða sætuhnúða með kalkún á þakkargjörðarhátíðinni.

Nafnaspeki

Þrátt fyrir nafnið eru sætar kartöflur fjarskyldir ættingjar kartafla og eiga fátt skylt með venjulegum kartöflum annað en að vaxa neðanjarðar. Kartöflutengingin er því villandi og réttara að kalla þetta rótargrænmeti sætuhnúð eða sætuhnýði.

Latínuheiti sætuhnúða er Ipomoea batatas. Ættkvíslarheitið Ipomoea er komið úr grísku ἴψ, ἰπός (ípsipós) sem þýðir að líkjast einverju. Tegundarheitið batatas er komið af batata sem er heitið á kartöflum á portúgölsku og þýðir að plantan hafi forðarót.

Fyrst eftir að planta barst til Evrópu var rótarhnýðið kallað spænsk kartafla.

Á ensku kallast sætuhnúðar sweet potato, Frakkar segja patate douce og Spánverjar batata og  Pólverjar słodki ziemniak. Á kínversku kallast þær 甘藷 eða gānshǔ og ტკბილი კარტოფილი í Georgíu. Þjóðverjar segja Süßkartoffel, Svíar sötpotatis og Danir sød kartoffel.

Á íslensku kallast rótarávöxturinn sætar kartöflur en ættu í að kallast sætuhnúðar.

Svín - grís

Þegar horft er til nytja á sætuhnúðum er 50% heimsframleiðslunnar borðuð af mannfólki, 30% er nýtt sem dýrafóður, aðallega fyrir svín.

30% heimsframleiðslunnar í dýrafóður

Í 100 grömmum af sætuhnúðum eru 90 kílókaloríur, um 21 grömm af kolvetnum, 7 grömm af sterkju, 6,5 grömm af sykri, 3,3 grömm af tefjum og 0,15 grömm af fitu. Hnýðið eru rík af B5, B6 og C-vítamíni auk kalíum og magnesíum.

Þegar horft er til nytja á sætuhnúðum er 50% heimsframleiðslunnar borðuð af mannfólki, 30% er nýtt sem dýrafóður, aðallega fyrir svín. Restin er nýtt til að brugga úr áfengi, sem útsæði eða annarra nytja.

Japanir eru allra þjóða iðnastar við að framleiða áfengi úr sætuhnúðum. Vínið kallast shochu og er 35% af styrkleika.

Vinsældir sætuhnúða, sem skornir eru í strimla eins og franskar kartöflur eða flögur, hafa farið ört vaxandi undanfarin misseri og margfaldað markaðshlutdeild og virði þeirra.

Hitakær planta

Sætuhnúðar þrífst best milli 40° norðlægrar og 30° suðlægrar breiddar og upp í 2.500 hæð yfir sjávarmáli. Kjörhitastig við ræktun er 20° Celsíus og má hitastigið helst ekki fara niður fyrir 15° eða upp fyrir 35° á ræktunartímanum. Plantan þarf að lágmarki 90 til 120 vaxtardaga eftir yrkjum

Plantan gerir litlar kröfur til jarðvegs en þolir illa mikla bleytu. Tilraunir sýna að hnúðarnir dafna best í eilítið súrum jarðvegi, pH 5,5 til 6,5.

Sætuhnúðar eru því vel ræktanlegir í þurrum og næringarsnauðum jarðvegi án þess að notaður sé mikill áburður. Þar sem hitastig og loftraki er plöntunni hagstætt er yfirleitt nóg að setja niður græðling eða rót í rakan jarðveg og láta plöntuna vera þar til kemur að uppskeru þremur til sex mánuðum síðar.

Hnýðin geymast vel í jarðvegi í óveðrum og oft ræktuð á svæðum þar sem fellibylir eru algengir sem varabirgðir falli annar nytjagróður. Annars geymast hnýðin ekki vel eftir að þau eru tekin upp. Talsvert er um að sjúkdómar og meindýr leggist á plönturnar þar sem þær eru ræktaðar í einræktun í stórum stíl.

Þrátt fyrir hundruð afbrigði af sætuhnúðum eru þeir sem fást í verslunum aðallega tvenns konar og er annað mýkra en hitt að innan. Mýkra afbrigðið er appelsínugult á litinn, sætara á bragðið og mýkra undir tönn eftir suðu en það ljósgula rammara og harðara undir tönn. Megnið af sætuhnúðum sem framleiddir eru í Bandaríkjunum, og fluttir eru hingað til lands, eru af mýkri og sætari gerðinni.

Ræktuð til skrauts

Vegna breytileika í blaðlögun og lit er plantan víða ræktuð sem stássplanta utandyra. Dæmi um skrautafbrigði í ræktun eru ‘Blackie’ sem er með vínrautt lauf, ‘Marguerite’ sem er með guleitt lauf, ‘Lady Fingers’ sem ber handlaga og græn blöð og ‘Tricolor’ sem er með þrílit lauf.

Sætar kartöflur – sætuhnúðar

Best er að matreiða ljósa eða gula hnúða með suðu en bleika með því að hita þá í ofni.

Bakaðir í ofni eða soðnir í potti

Sætuhnúðar eru góðir orkugjafar sem innihalda mikið af A- og C-vítamíni og steinefnum. Soðnir og stappaðir hnúðar með eilitlu af kókosolíu eru sagðir prýðilegur og ódýr barnamatur. Blöð plöntunnar má þurrka og nota í te.

Best er að matreiða ljósa eða gula hnúða með suðu en bleika með því að hita þá í ofni.

Gott er að grilla sætuhnúða og hafa sem meðlæti með öðrum grillmat. Séu hnúðarnir rétt grillaðir verða þeir stökkir að utan en mjúkir að innan.

Sætu hnúðar á Íslandi

Sætar kartöflur koma oft við sögu í íslenskum blöðum og tímari á síðustu öld og þá helst í frásögnum um framandi þjóðir. Þegar fer að nálgast síðustu aldamót fara þær að verða algengar í mataruppskriftum blaða og í dag þykja sætu hnúðar eins sjálfsagðar á diskum Íslendinga og venjulegar kartöflur.

Sumur hér á landi eru bæði of stutt og köld til þess að hægt sé að rækta sætuhnúða utandyra. Aftur á móti ætti að vera hægt að rækta plöntuna í köldu eða hálfvolgu gróðurhúsi.

Myndir: úr safni

Vilmundur Hansen, garðyrkjumaður og blaðamaður hjá Bændablaðinu.

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið