Pistlar
Íslenskur iðnaður
Í Morgunblaðinu laugardaginn 28. maí skrifar Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Samtaka Iðnaðarins andsvar við grein undirritaðara iðnmeistara um „Sérhagsmunasamtökin“. Grein okkar var sú þriðja í röðinni þar sem við sviptum hulunni af því sem hefur verið að gerast bakvið tjöldin í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35. Allt sem við höfum sett á blað er stutt gögnum, bæði úr fjölmiðlum og frá samtökunum sjálfum. Formaðurinn velur aftur á móti að skauta framhjá öllum staðreyndum, og ber okkur röngum sökum. Undirritaðir eru m.a. sakaðir um að bera íslenskan iðnað ómaklegum ávirðingum og ráðast á hann með heiftarlegum hætti. Til þess að öllu sé rétt til haga haldið þá eru Samtök iðnaðarins ekki íslenskur iðnaður. Þau eru aftur á móti samtök margra ólíkra fyrirtækja sem starfa í iðnaði. Undirritaðir þiggja ekki greiðslur fyrir vinnu sína ólíkt því sem hinn umhyggjusami formaður og stjórn samtakanna gerir. En launagreiðslur SI voru á árinu 2015 tæpar 252 milljónir króna. „Hlutverk Samtaka iðnaðarins er að efla íslenskan iðnað og samkeppnishæfni hans“, skrifar Guðrún. Hver úthlutaði þeim því hlutverki?
Gagnrýni á að vera svaraverð
Við teljum að þakka beri að sjálfskipaðir sérfræðingar SI í menntamálum iðnaðarmanna fóru ekki að skipta sér af þeim fyrr en raun ber vitni, því þá væri búið að hola hana enn meira að innan en orðið er og illa komið fyrir landi og þjóð. „Vissulega er það okkar von að iðnnám verði hafið til fyrri vegs og virðingar en SI hafa ekki sýnt í verki að þeirra vilji standi til þess.“ Það eru samtökin og vinnubrögð þeirra sem við erum að gagnrýna ekki hina dugmiklu félaga okkar í stétt iðnaðarmanna. SI virðast hafa misst öll tengsl við raunveruleikann og skortir fagþekkingu á iðngreinum. Undirritaðir hafa undanfarna mánuði verið að vekja athygli fagstéttanna á hvert SI stefna með róttækum breytingum á iðnnámi. Ítrekum við að það blasir við ungu fólki sem leggur fyrir sig þrepaskipt starfsnám að áeggjan SI að útskrifast með skert fagréttindi. Stefna sérhagsmunasamtakanna miðar illu heilli að því að útskrifa ungt fólk sem nýja kynslóð iðjufólks á lágum launum. Hvernig væri að formaðurinn útskýri nánar hvernig SI framkvæmir menntastefnu sína í Tækniskóla Atvinnulífsins í stað þess að gagnrýna undirritaða sem hafa varað við afleiðingum rótækra breytinga á hefðbundnu iðnnámi sem hefur reynst þjóðinni vel. Iðnnám er ekki einkamál Samtaka iðnaðarins.
Formaðurinn skautaði framhjá að svara eftirfarandi persónulegu atriði: „Umhyggja formanns SI fyrir íslenskum iðnaði er reyndar einstök því sama dag og iðnþing var haldið hótaði fjölskyldufyrirtæki hennar, Kjörís, í blaðaviðtali við Morgunblaðið, að flytja starfsemi sína úr landi.“ Fleira vekur athygli þar sem formaðurinn og fjölmargir aðrir stjórnarmenn SI sitja í stjórn Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins en þar er unnið leynt og ljóst að afnámi lögverndunar fjölda iðngreina, sbr. greinargerðina „Banvænn biti“ sem birtist á vefsíðu Viðskiptaráðs 8. sept 2015 og það án athugasemda stjórnar og starfsmanna SI sem taka hlutverk sitt að sögn formannsins mjög alvarlega. Formaður SI skrifar líka að meðal stefnumála iðnaðarins séu menntamál, nýsköpun og aukin framleiðni. Við bendum á að henni mun eiga að ná fram með minni menntun og lægri launum starfsfólks. Enda fagna samtökin á heimasíðu sinni nýjum útlendingalögum því með þeim má mögulega auka hagnað stórfyrirtækjanna. Eins og Viðskiptaráð bendir á í hinum banvæna bita eru ófaglærðir með 28% lægri laun en þeir sem starfa í lögvernduðum greinum. Reyndar birtir háskólinn í Göttingen sömu rannsóknir og Viðskiptaráð notaðist við, en segir þær marklausar og ónothæfar. Íslensk sérhagsmunasamtök horfa framhjá slíkri gagnrýni.
Vegið að iðnnáminu
Iðngreinarnar sem flestar eru aldagamlar eiga sér mikla og ríka sögu sem ein af kjölfestum samfélagsins. Hefur nám í þeim aldrei átt jafn illilega undir högg að sækja og eftir að sérhagsmunasamtökin komust með fingurna í það. Það er merkilegt að stjórnmálamenn á Íslandi hafa afskiptalaust horft uppá einkavæðingu iðnnáms. Flaggskipið Iðnskólinn í Reykjavík 104 ára með 2050 nemendur var lagður niður 2008 og Iðnskólinn í Hafnarfirði fór sömuleið 2015 með rúml 600 nemendur og þeir færðir undir Tækniskólann sem er einkarekstur í meirihlutaeigu Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins. Þetta voru stórkostleg mistök þáverandi menntamálaráðherra sem hóf þessa vinnu og starfar í dag sem menntafulltrúi hjá Samtökum atvinnulífsins og á sæti í stjórn Tækniskólans.. Samtökin depla ekki auga þegar þau leggja fram tillögur sem ganga í berhögg við gildandi lög í landinu (nr. 42/1978). Þau telja rétt að: „Fyrirtæki geti látið þjálfa upp og fengið viðurkenndan „iðnmentor í stað iðnmeistara“.
Hagnýt háskólastofnun er ekki iðnskóli
Nýlega bárust okkur fréttir að unnið væri að uppbyggingu fagháskólanáms á Íslandi. Menntamálaráðherra skipaði nefnd með fulltrúum frá m.a SA og ASÍ sem eiga frumkvæði að þessari vinnu. Það á að vinna hratt og skila niðurstöðu 1. september 2016. Til stendur að færa iðnmeistaranám á fagháskólastig. En hvað er fagháskóli? Fagháskóli er háskólastofnun sem starfar á sérhæfðum grundvelli og þá aðallega verkfræði, tækni og viðskiptafræðisviði. Slíkir skólar bera oft skýringarheiti aftan við skólaheitin, einkum: “Hochschule für angewandte Wissenschaften – HAW/ University of Applied Sciences“, þ.e. sérnám í hagnýtum vísindum. Inntökuskilyrði fyrir námi í fagháskóla í þýskalandi eru stúdentspróf eða meistararéttindi í löggiltri iðngrein. Hér er því ekki um nýtt og ákveðið formlegt faggreinasvið að ræða, heldur ákveðna tegund af hagnýtri háskólastofnun. Merkilegt að sérfræðingarnir viti það ekki? Í Þýskalandi eru meistararéttindi jafngild akademískum gráðum nánar tiltekið B.S. prófi og eru flokkuð á hæfniþrep 6 (EQF). Þar geta iðnmeistarar komist hindrunarlaust í nám á fagháskólastigi. Nær væri að jafnt háskólar landsins sem sérfræðingar SI gangi inn í 21. öldina og viðurkenni gildi iðnmenntunnar í landinu. Háskólinn í Reykjavík sem er líka í eigu samtakanna viðurkennir ekki iðnnáms einingar nema til diplómanáms. Tvennt hefur veitt iðngreinunum ákveðna sérstöðu: Þær þróast og slá með hjörtum samfélagsins. Aðlögunarhæfni þeirra er einstök, þær þurfa því ekki íhlutun sjálfskipaðra sérfræðinga sem ekki þekkja innviði iðngreina né viðurkenna fagþekkingu . Það er engin keðja sterkari en veikasti hlekkur hennar.
Grein þessi var einnig birt í Morgunblaðinu í dag á bls. 26.
Höfundar:
Sigurður Már Guðjónsson
Bakara- og kökugerðarmeistari
Helgi Steinar Karlsson
Múrarameistari
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðan
La Barceloneta er fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi sem hlýtur ICEX viðurkenningu
-
Uppskriftir5 dagar síðan
Vinsælustu uppskriftirnar árið 2024
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Þessi réttir stóðu upp úr hjá Michelin eftirlitsmönnum á árinu 2024
-
Frétt4 dagar síðan
Mest lesnu fréttir ársins 2024 á Veitingageirinn.is
-
Markaðurinn21 klukkustund síðan
Myndaveisla – Franski bakarameistarinn Remy Corbet Daniel Jean kynnti aldagamlar aðferðir við súrdeigs- og sætabrauðsbakstur
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Fálkahúsið og Kokka verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar á árinu sem var að líða
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Ertu frumkvöðull í íslenskri matvælaframleiðslu? 20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Fagfélögin taka í notkun nýjar Mínar síður