Neminn
Kaldur sannleikur um veitingageirann!
Eftirfarandi grein er ekki skrifuð sem persónuleg árás á einn eða neinn. Aftur á móti minnist ég í greininni á atriði sem ég hef tekið eftir að hrjái áberandi marga einstaklinga sem starfa innan þess geira sem ég er að læra til, en ég er að læra innan matvælageirans. Mér finnst nauðsynlegt að taka það fram hér að ég hef unnið á nokkrum mismunandi stöðum og hef því ekki einsleita yfirsýn og einnig hef ég talað við aðra nema í minni grein sem hafa upplifað mjög svipaða hluti og ég.
Ég hef ítrekað lent í því að það sé öskrað á mig í vinnunni. Ekki vegna þess að ég hafi ekki staðið mig eða sýnt yfirmönnum mínum dónaskap heldur vegna þess að yfirmenn mínir höndla ekki álagið sem er á þeim. Þeir eru stressaðir og kunna ekki annað en að láta álagið bitna á þeim sem eru neðstir í goggunarröðinni, þ.e. nemunum.
Það er víðfrægt hversu mikið taugaálag er á vinnustöðum eins og veitingahúsum hvers konar, en það réttlætir ekki að gera starfsmönnum gersamlega ólíft í vinnunni. Það virðist vera einhvers konar menning í þessum geira að yfirmenn láti sitt álag bitna á undirmönnum sínum. Mér finnst tími til kominn að þetta endi.
Væri ég að vinna á skrifstofu, í verksmiðju, í skóla eða hvar sem er annars staðar en ég er að vinna væri löngu búið að reka yfirmann/meistara minn! Viljið þið vita af hverju? Ástæðan er áfengisdrykkja! Í veitingahúsabransanum er það nánast sjálfsagt að yfirmenn drekki í vinnunni. Nú hugsið þið kannski með ykkur: En þetta er atvinnusjúkdómur í veitingageiranum. Alkóhólismi er ekki viðurkenndur atvinnusjúkdómur og þar af leiðandi er ekki hægt að fela sig á bak við sjúkdómsvæðinguna í þetta skiptið. Vissulega umgengst starfsfólk veitingabransans daglega áfengi í mjög miklu magni, en þó finnst mér eðlilegt að gera skýra kröfu um að fólk hafi sjálfstjórn. Mér finnst vert að minnast á það að áfengisneysla yfirmanna í veitingabransanum hefur minnkað mikið undanfarin ár en miklu betur má ef duga skal!
Veikindi á vakt eru enn annað vandamálið. Það virðist vera í einhverri óskrifaðri Biblíu meistaranna að ef nemi tilkynnir sig veikan í vinnu þá sé hann að ljúga. Ég get allavega vitnað um það að ef ég verð veik og þarf að tilkynna mig veika í vinnuna þá hringir meistarinn í mig og sakar mig um leti og aumingjaskap. Ég þyrfti að vera dauðvona á spítala til þess að fá frið fyrir meistaranum mínum. Það hlýtur hver maður að skilja að það er mjög erfitt og illgjörlegt að vinna með mígreniskast eða tognun á fæti og þar fram eftir götunum. En það skrýtna í þessu öllu saman er að ef svo einum þjóninum, þ.e. sveini, verður á í messunni og er á bömmer eftir fyllerý í vinnunni þá er ekkert mál fyrir viðkomandi að fá frí. Reglan: Þeir sem tilkynna sig veika í vinnu eru að ljúga gildir semsagt bara um nema! Ég get engan veginn skilið hvaða forgangsröðun liggur að baki því að endalaust er hægt að taka tillit til þynnku starfsmanna en ekki raunverulegra veikinda nema. Mér finnst tími til kominn að þessu linni. Launafólk á inni sína tvo veikindadaga á mánuði og þó að einstaka svarti sauður misnoti þá og hringi sig reglulega inn veika þrátt fyrir hestaheilsu nær það ekki nokkurri átt að saka alla um slíkan óheiðarleika.
Svo virðist vera að meistarar almennt haldi að nemar reyni að komast eins auðveldlega í gegnum námið og vinnuna og mögulegt er og helst svíkjast undan í leiðinni, eins mikið og unnt er. Staðreyndin er aftur á móti sú að flest okkar vinna gjörsamlega undan okkur fæturna til þess að reyna að fá viðurkenningu. Viðurkenningu sem svo er ekki nokkur leið að fá! Aftur á móti fáum við nóg af niðurrífandi og ósanngjarnri gagnrýni og skömmum. Svo finnst fólki ægilega skrítið að það sé svona lítið framboð af nemum í veitingageiranum!
Að lokum vil ég taka það fram við lesendur að gagnrýni mín á alls ekki við alla meistara í þessari stétt heldur eiga þeir að taka til sín sem eiga. Mér finnst kominn tími til að rödd nema í veitingageiranum fari að heyrast hærra. Það er komið nóg. En aftur á móti lýsir það núverandi ástandi mjög vel að það hvarflar ekki að mér að skrifa þessa grein undir nafni. Ég er ekki viss um að ég myndi fá frið í vinnunni eða ætti jafnvel á hættu að missa starfið. Það segir allt sem segja þarf þegar maður varla þorir að tjá sig opinberlega, stoltur með nafni!
Þreytti þjónaneminn!!!
Innsent efni
Reglur um birtingu efnis eftir ónafngreinda höfunda hér á Freisting.is
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
Slippurinn í Vestmannaeyjum tekur sitt síðasta tímabil 2025 – Gísli Matt: ástæða lokunarinnar er sú að við trúum því að allt gott taki enda
-
Frétt4 dagar síðan
Nýr miðlægur listi yfir sveina með starfsréttindi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Flottir ekta ítalskir réttir og pizzur af betri gerðinni – Fagnaðu gamlárskvöldinu með stæl á Piccolo – Myndir
-
Food & fun2 dagar síðan
Tveir íslenskir gestakokkar verða á Food and Fun hátíðinni í Stavanger
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun7 klukkustundir síðan
La Barceloneta er fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi sem hlýtur ICEX viðurkenningu
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Árið 2024 var stórt ár fyrir matgæðinga á KEF